sunnudagur, janúar 05, 2003

Óvænt bátsferð


Í gær drattaðist ég seint á lappir. Eftir síðbúinn morgunverð kíkti ég í blöðin. Kalli fór út að hjóla, ég nennti því ómögulega en tók blaðið þess í stað með mér inn í stofu og asnaðist til að leggjast upp í sófa. Þegar ég hafði lesið allt sem mér fannst áhugavert í blaðinu, velti ég mér á hliðina og sofnaði auðvitað. Ég hrökk svo við af blundinum þegar Kalli kom heim. Ég reyndi af veikum mætti að hrista af mér svefndrungann en það heppnaðist ekki betur en svo að ég endaði uppi í rúmi undir sæng og steinsofnaði aftur. Ég rankaði loks við mér um kaffileytið, alveg eins og tuska. Ég virðist alltaf verða alveg ferlega slöpp ef ég sofna svona á daginn. Við ákváðum því að drífa okkur út í göngutúr út með voginum í átt að Nauthólsvík.

Eftir góðan spotta þóttist Kalli sjá bát á reki nálægt ströndinni, hugsaði svo með sér að það gæti ekki verið. Báturinn hvarf honum sjónum en birtist síðan aftur undir klettunum í fjöruborðinu stuttu síðar. Þá var tekið á rás niður í fjöru til að líta á bátinn. Hann var óbundinn og Kalli kannaðist strax við hann. Þetta var bátur sem hann hafði séð nokkrum sinnum hinum megin vogsins í fjörunni neðan við íbúðarhús við sjóinn. Svo stakk hann upp á því að við rérum honum til baka og gerðum eigendum hans stórgreiða. Og það gerðum við.

Við lögðum að landi á þeim stað sem Kalli hafði séð hann. Þar var kaðalspotti í fjörunni og út í sjó. Við bönkuðum svo upp á í húsinu fyrir ofan. Þar reyndust eigendurnir búa og við fengum þakkir fyrir (þótt heimilisfaðirinn, sem hafði misst bátinn, hefði farið á bíl með kerru til að sækja fleytuna og gripið í tómt).
Það rættist því bara nokkuð vel úr deginum

Engin ummæli: