fimmtudagur, janúar 16, 2003

Raunir hjólreiðakonunnar


Þá er ég komin aftur. Ég tók mér smá frí frá dagbókarskrifum í tíu daga en er nú komin aftur á skrið.

Ég er byrjuð á nýjum vinnustað og þarf því að hjóla nýja leið til vinnu upp á Öskjuhlíðarhálendið (þar sem Veðurstofan er). Fyrsta morguninn, þ.e. á mánudaginn var, ákvað ég að reyna að besta leiðina, þ.e. fara þá stystu og tapa sem minnstri hæð. Ég er nefnilega dalbúi og þarf að hjóla upp langar brekkur upp úr dalnum. Þetta tókst ekki betur en svo að eftir fyrstu brekkuna reyndi ég að komast á göngustíg milli húsa (neðan við Borgarspítalann) en þurfti hvað eftir annað að snúa við og þegar ég loks komst út úr götunni tók ég eftir því að ég var í nákvæmlega sömu hæð og ef ég hefði bara rennt mér strax niður brekkuna.

Þá var ég komin að göngubrúnni og hjólaði yfir (í áttina að Fossvogs-kirkjugarðinum) og enn tók við brekka. Svo beygði ég inn í hverfið (Suður-Hlíðar ?) vitandi af undirgöngum undir Bústaðaveginn efst í hverfinu. Þar þurfti ég aftur að fara fram og til baka enda eru göturnar eitt völundarhús. En loks hitti ég á réttan botnlanga og göngin falin bak við leikvöll. Ég var allt of lengi að fara þessa stuttu leið.

Nú, nú. Dagin eftir ákvað ég að reyna ekki aftur að komast hjá hæðartapi og fór sátt upp fyrstu brekkuna og niður aftur. Þegar ég kom að göngubrúnni ákvað ég að fara bara beinustu leið upp meðfram Hafnarfjarðarveginum/Kringlumýrarbraut og hjóla bara yfir á stóru brúnni. Það var enn föl frá mánudeginum og því þyngra að hjóla en venjulega. A.m.k. blés ég eins og hvalur síðustu metrana upp brekkuna löngu og var komin með blóðbragð í munninn þegar ég komst loks á áfangastað. Þvílíkur aumingi!

Mér leist því ekkert á veðrið í morgun og ákvað að kúra lengur þegar ég sá allan snjóinn. Klukkutíma síðar hafði ég mig á fætur og lagði af stað. Veðrið er nefnilega sjaldnast eins vont og menn halda. Ég hugsaði með hryllingi til brekkunnar löngu og byrjaði að puða upp. Þegar ég var að koma að brattasta kaflanum og næstum farin að örvænta, kom snjóruðningstæki æðandi á móti mér og ég varð að forða mér hið snarasta út af gangstéttinni. Eftir þetta varð leið mín mun greiðfærari.

Mikið svakalega er ég heppin að fá svona fína læraæfingu á hverjum morgni! Er ekki um að gera að líta á björtu hliðarnar?

Engin ummæli: