þriðjudagur, janúar 21, 2003

Grimmdar-vísindi í Uppsölum


Í morgun vaknaði ég upp með slæma hálsbólgu vinstra megin og vorkenndi mér svo mikið að mér tókst að plata sjálfa mig og svaf í klukkutíma í viðbót. Ég var því ekki komin í vinnuna fyrr en rúmlega níu. Ég óttast að andstyggðarkvef muni hellast í mig í dag. En þótt klukkan væri ekki orðin margt var ég fljótlega farin að finna steikingarlykt úr eldhúsinu (sem er við hliðina á skrifstofunni minni). Og svei mér þá, ég held að kokkurinn sé að djúpsteikja e-ð.

En það sem ég ætlaði nú aðallega að minnast á í dag er sænski þátturinn sem ég horfði á í gærkvöldi. Sáuð þið hann? Almáttugur, það er varla að ég hafi nokkra lyst á að fara þarna og læra við skólann þar sem öll þessi grimmd á sér rætur. Það kom í ljós að Svíar stóðu í kynþáttahreinsunum frá því snemma á 20. öld fram yfir öldina miðja. Já, ófrjósemisaðgerðir áttu sér stað í miklum mæli frá 1913 og allt fram til 1975!!! Flestar voru þær þó í kringum 1948. Læknar ákváðu á einstökum fundum að framkvæma 80-100 aðgerðir á saklausum börnum í einu. Þeir gengu svo langt að t.a.m. voru flogaveikir álitnir heimskingjar og tekið var viðtal við konu sem varð flogaveik þegar hún fékk fyrstu blæðingar. Þar með var hún stimpluð "óæskileg" og þegar hún var með barni, 21 árs gömul og komin sex mánuði á leið, fór hún glöð til læknis síns og hugðist segja honum gleðitíðindin. Sú ferð endaði með því að hann varð ofsareiður og sendi hana beina leið í fóstureyðingu og ófrjósemisaðgerð. Þetta er bara eitt dæmi af mýmörgum. Langflestar ófrjósemisaðgerðanna voru gerðar á konum, þótt þær séu miklu hættulegri, flóknari og kostnaðarsamari en á körlum. Hugsið ykkur. 63.000 aðgerðir og flestar á börnum sem voru ekki einu sinni komin á kynþroskaskeið.

Í Uppsölum er að finna mikið safna bóka um þessi fræði og fjöldann allan af höfuðkúpum og öðrum beinum úr fólki. Menn höfðu einkum áhuga á beinum úr Sömum og víluðu ekki fyrir sér að ræna grafir og afhausa lík Samanna. Þeir þóttu nefnilega óæðri kynþáttur í landinu. Samar hafa annars konar höfuðlag en "hreinir, germanskir" Svíar. Höfuðkúpa Samanna er (svipað og N-Finna og slavneskra þjóða) breiðari og þeir hafa flatara andlit. Breið kúpa var ávísun á heimsku mann, þeir væru drykkfelldari, áttu erfiðara með að læra og væru til meiri vandræða í samfélaginu. Það var því mælt eindregið gegn blöndun Sama við hreina Svía.

Það varð mikið hneiksli þegar upp komst um málið fyir nokkru og fréttin barst út. Menn skömmuðust sín og buðu öllum fórnarlömbum ófrjósemisaðgerðanna 175.000 kr í bætur. En það eru hlutfallslega fáir sem gefa sig fram. Skömmin er mikil og margt fólk kærir sig alls ekki um að vinir og nágrannar fái nokkra vitneskju um þennan svarta blett á fortíð þeirra. Skiljanlega. Svona nokkuð mun aldrei verða bætt með peningum eða yfirhöfuð á nokkurn hátt.

Engin ummæli: