fimmtudagur, janúar 02, 2003

Nýtt ár/ný klipping


Kæru lesendur/vinir! Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka liðið.


Ég las hjá Kristjáni og Stellu að þau hafa verið að líta yfir liðið ár og gera sniðugan "to-do"lista. Ég er sjálf með nokkrar hugmyndir sem ég myndi setja á minn lista, ef hann væri nú til. Mig hefur lengi langað til Grænlands og Færeyja og sé mikið eftir því að hafa ekki spurt hvort ég mætti koma með í Færeyja ferð Siggu og co. Auk þess hef ég aldrei komið til Vestmannaeyja. Það væri sniðugt að setja upp plan fyrir eyja-ferðasumar, Grænland, Færeyjar og Vestmannaeyjar! Ég efast þó stórlega að nokkuð verði úr því. Mér þykir líklegra að fríið mitt fari í gönguferðir, eins og síðustu þrjú sumur.
Í sumar kláruðum við hornalínuna yfir landið, frá Reykjanestá út á Font á Langanesi. Ég hef því stigið hvert einasta skref á allri leiðinni og er þar með sönnu orðin landshornaflakkari. Þetta byrjaði með hvítasunnuferð vorið 2000 með Siggu Sif, við þrömmuðum saman á tveimur og hálfum degi frá Reykjanesvita að Kaldárnesi. Það var eftirmynnileg og skemmtileg ferð. Ætili Hornstrandirnar verði ekki fyrir valinu í sumar. Þaðan má svo halda áfram seinna í SA og draga hina línuna yfir landið. Á ekki-til-listann fer líka gönguferð á Botnsúlur. Svo finn ég kannski upp á e-u sniðugu í Svíþjóð. Jafnvel gæti ég skroppið yfir til Finnlands, þangað hef ég heldur aldrei komið.


Í morgun átti ég pantaðan tíma í klippingu. Eftir það hringdi ég í Gerðu. Við hittumst á Súfistanum og fengum okkur þar léttan hádegismat og göngutúr i bænum og niður á bryggju. Mér finnst ég koma allt of sjaldan í miðbæinn eftir að ég hætti í HÍ. Þá var oft gaman að fara snemma heim á föstudegi, ganga niður í bæ og upp Laugaveginn og taka strætó á Hlemmi.


Nú hætti ég, þetta er orðið æði ruglingslegt, þið verðið að afsaka. Sæl að sinni.

Engin ummæli: