föstudagur, janúar 17, 2003

Snilldartaktar í leikfimi


Fimmtudagar eru leikfimisdagar. Ég hjólaði því eftir vinnu í WC og hamaðist þar sem mest ég mátti í pallatíma. Eftur öll lætin teygðum við vel. Mér datt í hug að reyna að komast í splitt eftir teygjurnar, og viti menn, ég held bara að það hafi tekist, bæði með hægri og vinstri fram. Ég varð nú svolítið montin.

Á leiðinni heim tókst mér að detta á hjólinu, það hreinlega rann undan mér út á hlið. Sem betur fer var lendingin mjúk en ég hafði þeim mun meiri áhyggjur af því að vegfarendur á Bústaðaveginum hefðu séð mig, það er ferlega pínlegt að detta á almannafæri. Þegar ég kom svo heim datt mér í hug að endurtaka splittæfinguna. Það tókst ekki betur en svo að þegar ég ætlaði að renna mér niður fékk ég allt í einu ægilegan verk aftan í vinstri fótinn, og svei mér, ef ég heyrði ekki e-ð rifna. Ég hætti snarlega við en það var auðvitað um seinan. Skaðinn var skeður. Ég vona þetta sé ekki alvarlegt, en það er vont að ganga, beygja sig og mér datt ekki í hug að hjóla í dag. Ætli ég taki því ekki rólega í dag og sjái hvort þetta jafnar sig ekki.

Stundum get ég verið óttalegur kjáni!

Engin ummæli: