mánudagur, apríl 12, 2004

Gönguferð, kjetát, djamm og dans, og meira kjetát...


Þetta páskafrí er alltof fljótt að líða, væri til í að fá svona viku í viðbót!
Á föstudaginn langa dreif ég Berglindi með mér í fjallgöngu, enda var veðrið með eindemum gott. Ókum í Dyradal í Henglinum og gengum upp á Vörðu-Skeggja. Fengum frábært útsýni og renndum okkur niður nokkrar snarbrattar fannir á leiðinni niður. Góða veðrið entist reyndar ekki út allann túrinn því á niðurleið var komin hálfgerð slydda. Nú, Gerða Björk bauð mér svo í kvöldmat. Ég fékk danska osta í forrétt og svo nautasteik með rjómasveppasósu, ofnbakaðar kartöflur og meira að segja smá rauðvínslögg (mér fer fram...). Héldum svo af stað úr Breiðholtinu á miðnætti í partý hjá Óla Rögg. Þar var allt á fremur rólegu nótunum. Ákváðum svo að kíkja aðeins á dansgólfin í bænum, enda frábært að fara út að dansa með Gerðu. Þræddum nokkra staði, fyrst á 11, alltof löng röð á Sirkus, enduðum því í eftirminnilegu hipp hoppi á Vegamótum. Hittum þar líka fyrir einn úr partýinu hjá Óla. Þegar ég var búin að fá mig fullsadda af afar einhæfðri tónlistinni drifum við okkur á Sólon og dönsuðum þar nokkra stund. Ég skutlaði svo Gerðu heim í Breiðholtið og sat svo sjálf hálfsofandi yfir tölvunni hér heima í röskan hálftíma áður en ég drattaðist í rúmið að verða sex.
Við tók laugardagur með hangikjeti hjá ömmu í hádeginu og svo páskadagur með lestri og kvöldmat hjá fyrrverandi mágkonu. Fékk þar æðislegan mat að vanda, svakalegan gúmmulaði eftirrétt, Gammel dansk og smakkaði á þremur líkjörum. Úff. Búin að taka því rólega í dag. Bakaði (líklega misheppnaða) eplaostaköku fyrir kvöldið, við frænkurnar ætlum að hittast í mat í kvöld. Bror og Sara koma lika frá Englandi á eftir, jiiii hvað ég hlakka til að fá nýju diskana mína!

Engin ummæli: