Rokk
Ég ætla að skella mér á rokktónleika á föstudag á Nasa. Sub Dub Micromachine og Brain Police. Er búin að vera að velta þessu fyrir mér fram og til baka í viku og loksins búin að taka ákvörðun. Og fer bara ein. Langar einhvern/einhverja með mér? Endilega látið mig vita. Það væri skemmtilegra.
Stóð í eldhúsinu fram yfir miðnætti í gær. Mér tekst e-n veginn alltaf að vera óskaplega lengi að öllu (þess vegna elda ég sjaldan). Ég ákvað sum sé að það væri sniðugt að undirbúa kvölmat dagsins í dag í gær og lagaði fullt af hnetubuffum í ísskápinn. Ég pillaði meira að segja skurnina af pistasíuhnetum til að saxa niður í rasp (þ.e. auðvitað hneturnar, skurnin fór í ruslið). Svo þurfti auðvitað að vaska upp allt draslið og að lokum tók ég matreiðslubækurnar inn i rúm til að finna hentuga sósu. Þar sem klukkan var orðin ansi margt (rúmlega eitt) taldi ég það næsta víst að það yrði fjandi erfitt að vakna klukkan sjö svo ég ákvað að setja vekjaraklukkuna inn í stofu. Þá þyrfti ég að fara lengra til að slökkva á henni. Þetta system brást aðeins í morgun. Ég stóð upp, stillti hana á átta og fór svo aftur í rúmið til að rifja aðeins betur upp furðulegan draum sem mig var að dreyma.
Ákvað að ganga í vinnuna, það var svolítið vesen að hjóla í gær. Og svo fannst mér tilvalið að prófa nýju, fínu, hvítu og feykilega hlýju loðhúfuna mína sem ég keypti mér í síðasta mánuði. Hún fer sko með til Svíþjóðar eftir rúmar tvær vikur!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli