mánudagur, október 20, 2003

Kötturinn sem hvarf


Ætli e-r ykkar hafi verið að velta fyrir sér hvað varð um kisa? Ég heyrði því miður ekkert í honum næstu nótt, né nokkuð síðan. Ég vildi gjarna vita um afdrif hans, en vona bara að hann hafi komist e-s staðar inn og sé í góðu yfirlæti.

Á föstudaginn hafði ég ákveðið að prófa eldavélina og elda mér súpu úr nýju matreiðslubókinni minni (Grænn kostur Hagkaupa). Ég fór því í innkaupaferð eftir vinnu. Ætlaði að vera sniðug og sparsöm og kaupa sem mest í Bónusi. Ég rogaðist með tvær hjólatöskur og handkörfu um búðina. Út kom ég með troðfullan poka sem ég gat troðið að mestu í tómu töskuna. Hin var hálffull af leikfimisdóti. Þá átti ég eftir að finna sérvörur eins og engiferrót, karrímauk, sellerírót og e-ð fleira sem ekki fékkst í Bónusi. Svo ég rogaðist með töskurnar yfir í hinn enda Kringlunnar í Hagkaup. Ojjj. Þetta er ein leiðinlegasta verslunarferð sem ég hef farið. Ég get svarið það. Að kaupa í matinn ein og billaus á föstudegi er sko miklu leiðinlegra en að vaska upp!!! Fjórði og síðasti skammtur súpunnar bíður inni í ískáp og verður hitaður upp í kvöld.

Og hvað gerði ég svo fleira skemmtilegt um helgina? Hmmm. Bakaði. Og svindlaði mér með í jómfrúrferð bátsins Karlsfars. Róið var yfir Fossvoginn og tilbaka og svo aftur yfir og báturinn tekinn á land þar. Ég fékk aðeins að taka í árarnar. Mér finnst gaman að komast út á sjó, sérstaklega í árabát en því miður er ég einstaklega ólagin við árarnar. Myndir af viðburðum helgarinnar og síðasta mánaðar eru væntanlegar .... daddaraddada.... kannski bara á morgun?

Engin ummæli: