Kattavæl og meira svefnleysi
Þetta er ekki góð byrjun. Ég á greinilega ekki að geta unað mér í Birkigrundinni. Í gærkvöldi, þegar ég kom heim og ætlaði að fara að tengja sjónvarpið kom í ljós að loftnetssnúran passaði ekki, tengið í veggnum er eins og á sjónvarpinu og allar loftnetssnúrur sem seldar eru hafa mismunandi tengi í hvorum enda. Ég missti því af Alías. Ég setti þá Eurythmics í tækið og hélt áfram að raða bókum og skipta í flokka. Sorteraði líka geisladiskana eftir stafrófsröð og stússaði e-ð í hinu og þessu. Held að klukkan hafi verið orðin eitt þegar ég ætlaði loksins í rúmið. Haldiði ekki að kisi hafi þá farið að væla. Sami kisi og hélt vöku fyrir mér þarsíðustu nótt. Það var orðið ansi hvasst í gærkvöldi og ég vorkenndi greyinu svo ég æddi út á stétt á náttkjólnum og berfætt og kallaði kis kis og mjá mjá já já en ekki vildi kisi koma og tala við mig. Ég sá hann heldur ekki svo ég gafst upp. Mér tókst að sofna. Um fjögur-leytið vaknaði ég við stöðugt væl. ,,Hvað eru kattaeigendur að hugsa að hleypa dýrunum sínum ekki inn tvær nætur í röð í vonskuveðri?'' hugsaði ég. Ég gat ómögulega sofnað og dreif mig í buxur og úlpu og út. Kisi vældi og vældi. Loksins sá ég hann skjótast undan bílnum, sem stóð i innkeyrslunni við húsið á móti. Hann var bara pinkuponsu lítill og svartur. Ekki margra mánaða gamall. Hann skaust inn í þéttan runna og ég gat ómögulega náð honum. Ég gafst því upp. Ég gat ómögulega sofnað, hugsandi um lítinn, vanræktan kettling í garðinum á móti. Vindurinn gnauðaði. Úhhh, honum hlýtur að vera kalt. E-ð hlýt ég þó að hafa dormað, því enn vaknaði ég upp við væl hálf-sjö. Og aftur fór ég út til að reyna að handsama kisa. Í þetta skiptið kom hljóðið undan bílnum. Ég skreið og kíkti undir bilinn. Ekkert. Eftir mikið mjá mjá og kis kis kis fékk ég loksins svar aftur. Þá sat litli uppi á dekkinu, undir breittinu. Ég rétt sá glitta í svarta loppu í myrkrinu. Reyndi að tæla hann út með strái. Var að hugsa um að fara að grípa til hans þegar honum tókst að stökkva burt og bak við húsið. Þar missti ég af honum. Vildi ekki fæla hann í burtu og ekki heldur að vera að ráfa um bakgarð nágranna minna svona snemma morguns.
Og þannig fór nú það. Ég náði að blunda svolítið seinna um morguninn. Dreif mig svo loksins af stað. Kom við í raftækjabúð og fékk millistykki á loftnetssnúruna. Nú ætti ég að geta tengt í kvöld. Er annars e-r sem býður sig fram í að gista og hjálpa mér að handsama kattargrey í nótt? Hafið þið e-r góð ráð?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli