þriðjudagur, október 28, 2003

Wilde


"Experience is the name everyone gives to their mistakes."

Eða hvað?


Fyrsta vetrarferðin í langan tíma var farin á hjólinu í morgun, -í vinnuna. Það brakaði í frosnum snjónum. Ég setti á mig lambhúshettuna og setti nýjar rafhlöður í afturljósið. Mér tókst líka að vakna á undan klukkunni í morgun, fyrir sjö, sem er þvílíkt aftrek því mér hefur ekki tekist að vakna svo snemma lengi. Er búin að vera að reyna síðustu vikur, stilli klukkuna, set hana í hinn enda herbergisins, stend upp og slekk á henni þegar hún hringir, leggst svo aftur undir sæng og sannfæri mig um að ég sé alltof þreytt til að fara á fætur. Og sef í klukkutíma. En ekki meir, ónei. Nú er það bara harkan sex. Eða sjö, reyndar.


Var einhver að tala um gúrkutíð?

mánudagur, október 20, 2003

Kötturinn sem hvarf


Ætli e-r ykkar hafi verið að velta fyrir sér hvað varð um kisa? Ég heyrði því miður ekkert í honum næstu nótt, né nokkuð síðan. Ég vildi gjarna vita um afdrif hans, en vona bara að hann hafi komist e-s staðar inn og sé í góðu yfirlæti.

Á föstudaginn hafði ég ákveðið að prófa eldavélina og elda mér súpu úr nýju matreiðslubókinni minni (Grænn kostur Hagkaupa). Ég fór því í innkaupaferð eftir vinnu. Ætlaði að vera sniðug og sparsöm og kaupa sem mest í Bónusi. Ég rogaðist með tvær hjólatöskur og handkörfu um búðina. Út kom ég með troðfullan poka sem ég gat troðið að mestu í tómu töskuna. Hin var hálffull af leikfimisdóti. Þá átti ég eftir að finna sérvörur eins og engiferrót, karrímauk, sellerírót og e-ð fleira sem ekki fékkst í Bónusi. Svo ég rogaðist með töskurnar yfir í hinn enda Kringlunnar í Hagkaup. Ojjj. Þetta er ein leiðinlegasta verslunarferð sem ég hef farið. Ég get svarið það. Að kaupa í matinn ein og billaus á föstudegi er sko miklu leiðinlegra en að vaska upp!!! Fjórði og síðasti skammtur súpunnar bíður inni í ískáp og verður hitaður upp í kvöld.

Og hvað gerði ég svo fleira skemmtilegt um helgina? Hmmm. Bakaði. Og svindlaði mér með í jómfrúrferð bátsins Karlsfars. Róið var yfir Fossvoginn og tilbaka og svo aftur yfir og báturinn tekinn á land þar. Ég fékk aðeins að taka í árarnar. Mér finnst gaman að komast út á sjó, sérstaklega í árabát en því miður er ég einstaklega ólagin við árarnar. Myndir af viðburðum helgarinnar og síðasta mánaðar eru væntanlegar .... daddaraddada.... kannski bara á morgun?

þriðjudagur, október 14, 2003

Kattavæl og meira svefnleysi


Þetta er ekki góð byrjun. Ég á greinilega ekki að geta unað mér í Birkigrundinni. Í gærkvöldi, þegar ég kom heim og ætlaði að fara að tengja sjónvarpið kom í ljós að loftnetssnúran passaði ekki, tengið í veggnum er eins og á sjónvarpinu og allar loftnetssnúrur sem seldar eru hafa mismunandi tengi í hvorum enda. Ég missti því af Alías. Ég setti þá Eurythmics í tækið og hélt áfram að raða bókum og skipta í flokka. Sorteraði líka geisladiskana eftir stafrófsröð og stússaði e-ð í hinu og þessu. Held að klukkan hafi verið orðin eitt þegar ég ætlaði loksins í rúmið. Haldiði ekki að kisi hafi þá farið að væla. Sami kisi og hélt vöku fyrir mér þarsíðustu nótt. Það var orðið ansi hvasst í gærkvöldi og ég vorkenndi greyinu svo ég æddi út á stétt á náttkjólnum og berfætt og kallaði kis kis og mjá mjá já já en ekki vildi kisi koma og tala við mig. Ég sá hann heldur ekki svo ég gafst upp. Mér tókst að sofna. Um fjögur-leytið vaknaði ég við stöðugt væl. ,,Hvað eru kattaeigendur að hugsa að hleypa dýrunum sínum ekki inn tvær nætur í röð í vonskuveðri?'' hugsaði ég. Ég gat ómögulega sofnað og dreif mig í buxur og úlpu og út. Kisi vældi og vældi. Loksins sá ég hann skjótast undan bílnum, sem stóð i innkeyrslunni við húsið á móti. Hann var bara pinkuponsu lítill og svartur. Ekki margra mánaða gamall. Hann skaust inn í þéttan runna og ég gat ómögulega náð honum. Ég gafst því upp. Ég gat ómögulega sofnað, hugsandi um lítinn, vanræktan kettling í garðinum á móti. Vindurinn gnauðaði. Úhhh, honum hlýtur að vera kalt. E-ð hlýt ég þó að hafa dormað, því enn vaknaði ég upp við væl hálf-sjö. Og aftur fór ég út til að reyna að handsama kisa. Í þetta skiptið kom hljóðið undan bílnum. Ég skreið og kíkti undir bilinn. Ekkert. Eftir mikið mjá mjá og kis kis kis fékk ég loksins svar aftur. Þá sat litli uppi á dekkinu, undir breittinu. Ég rétt sá glitta í svarta loppu í myrkrinu. Reyndi að tæla hann út með strái. Var að hugsa um að fara að grípa til hans þegar honum tókst að stökkva burt og bak við húsið. Þar missti ég af honum. Vildi ekki fæla hann í burtu og ekki heldur að vera að ráfa um bakgarð nágranna minna svona snemma morguns.

Og þannig fór nú það. Ég náði að blunda svolítið seinna um morguninn. Dreif mig svo loksins af stað. Kom við í raftækjabúð og fékk millistykki á loftnetssnúruna. Nú ætti ég að geta tengt í kvöld. Er annars e-r sem býður sig fram í að gista og hjálpa mér að handsama kattargrey í nótt? Hafið þið e-r góð ráð?

mánudagur, október 13, 2003

Flutningar og stúss


Jæja, þá er ég mætt aftur eftir enn eitt helgarfríið. Get nú varla talað um frí því ég er búin að vera að bera kassa og húsgögn, pakka, bera meira, pakka upp, færa til o.s.frv. Og fæstir hlutir hafa fundið sinn samastað eftir þetta umrót. Og varla ég heldur. Svaf illa í nótt á nýja staðnum og átti enga súrmjólk í morgun. Þegar ég ætlaði í vinnuna mundi ég eftir því að bíllinn var enn fullur að geymsludrasli (aðallega gömlum skólapappírum og garnafgöngum) sem mig langaði ekkert að fá inn. Ég fór því í það að bera áður en ég gat lagt af stað.

Í hádeginu skutlaðist ég til að kaupa loftnetssnúru. Eftir heimsókn til pabba í kvöld, ætla ég að tengja sjónvarpið og mynbandstækið, til að geta horft á Launráð í kvöld. Draslið má eiga sig til morguns.
Vinir eru velkomnir í heimsókn til mín. -Ef þeir þola smá óreiðu. Annars var Berglind fyrsti gesturinn. Hún var svo elskuleg að hjálpa mér að flytja húsgögn og kassa á laugardaginn. Og velja réttu hlutina í IKEA :-). Fyrir hjálpina þáði hún þurrt brauð og vatn. (Ég tek það reyndar fram að ég bauð henni flatbrauð með kæfu og sméri og kókómjólk, það var pent afþakkað.) Ég reyni að bjóða upp á e-ð betra næst., BH, og þið hin.

fimmtudagur, október 09, 2003

Lítil frænka


Í gærkvöldi fór ég á stórskemmtilega danssýningu í Borgarleikhúsinu. Íslenski dansflokkurinn var með lokaæfingu og fengu tveir fulltrúar frá hinum ýmsu fyrirtækjum að fara. Ég var sú eina sem gaf sig fram hér á Ví svo ég fékk báða. Sýndir voru þrír dansar:

1) Symbiosis- "Fáránleiki hversdagslegra ástarsambanda"
2) Party
3) Match
Dansarnir voru fjörugir og skemmtilegir. Inn í Party var blandað smá leik og Match var fullur af húmor. Í raun var hann skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Þar er líka gert létt grín að kunnuglegum hreifingum og töktum sem sjást í fótboltaleikjum. Við hlógum öll mikið. Ef e-r ykkar hefur minnsta áhuga á dansi, mæli ég eindregið með þessari sýningu. Og ég ætla mér að fara oftar á sýningar flokksins.


Eftir sýninguna þreif ég saumavélina út í bíl heima og brunaði í saumaklúbb í Hafnarfjörðinn. Þar náði ég að strauja slatta af bútum sem saumaðir voru saman þegar við hittumst síðast, frænkurnar. Anna Beta var orðin kasólétt og gengin viku fram yfir. Hrefna Sif var að sauma eldhúsgardínur og Harpa að sauma út. Við fórum ekki heim fyrr en rúmlega hálf-tólf.
Rétt áðan hringdi Harpa í mig og sagði mér að Anna Beta hefði ekki fengið svefnfrið nema til fjögur í nótt, þá fór allt af stað. Hún var komin inn á fæðingadeild hálftíma síðar og allt yfirstaðið sjö í morgun. Ég er búin að eignast nýja, litla frænku, stóra og pattaralega. Ég óska Önnu Betu og Gunnari innilega til hamingju! :-)

miðvikudagur, október 08, 2003

kvart kvart og fuglalíf


Ég for að sækja bílinn í gær. tikka-tikk hljóðið reyndist vera ventlabank. Mói hefur því fengið ný ventillok (eða ventla ?), ný kerti og vatn á rafgeyminn. Já, vatnsstaðan á geyminum var alls ekki góð. Vatnið virðist hafa gufað upp af honum. Vona bara að hann sé ekki ónýtur. Hitt var nógu dýrt. 20 þúsund kall fyrir bílaviðgerð. Úff, það er dýrt að reka bíl. Fegin að hafa sloppið við það hingað til... Nú á Mói bara eftir að fá smurningu fyrir veturinn og vetrardekk þegar það fer að snjóa e-ð að ráði.

Í sumar var mikið fuglalíf hér á túninu við Veðurstofuna. Þar höfðust við hópar af lóum. Ég sá reyndar nokkrar á vappi hér fyrir utan gluggann í fyrradag. Það voru ungir fuglar, hálfstálpaðir. Ég var að velta því fyrir mér hvort þeir hafi misst að hópnum sem fór suður. Ætli allar lóur séu ekki þegar farnar? Ætli þessi litlu grey lifi veturinn af hérna? (Hef að þessu þungar áhyggjur...) Sé núna grágæsir á beit hér fyrir utan gluggann. Ætli þeim finnist túnið hér ekki ákjósanlegur vetrarstaður. A.m.k. meðan þær geta e-ð kroppað í grasið.

þriðjudagur, október 07, 2003

Í strætó


Í morgun tók ég strætó. Ég þurfti nefnilega að fara með Móa litla (bílinn) á verkstæði. Það er búið að vera e-ð tikk tikk auka-ganghljóð undanfarið og svo kom ég aftur að bílnum rafmagnslausum hér við Veðurstofuna á sunnudaginn, þegar við komum heim úr helgarferðinni. Ég er reyndar farin að halda að bíllinn kunni ekki við að láta skilja sig eftir annars staðar en heima því ég kom líka að honum rafmagnslausum hjá farfuglaheimilinu þegar ég kom að austan (úr sumarskólanum) fyrir mánuði. Þetta hefur hins vegar aldrei gerst þegar hann stendur úti í Furugrundinni.

Jæja, ég tók sum sé strætó úr Hafnarfirðinum í vinnunna. Á biðstöðinni hitti ég gamla skólasystur úr Öldutúni svo ferðin varð miklu skemmtilegri fyrir vikið. Við höfðum báðar verið að ræða það við vinkonur okkar, að tími væri komin á "reunion" og ætlum að reyna að gera e-ð í því bráðlega. Hún fékk netfangið mitt. Vona bara að e-ð verði úr þessu...

Þórsmerkurferðin var stórskemmtileg. Við komum inn í Goðaland um hálf-ellefu. Þá var komið frost og orðið heldur kalt, en samt lygnt. Ég ákvað því að tjalda, eins og þrír aðrir. Svaf í úlpunni minni en vaknaði samt öðru hverju út af kulda. Ég er nokkuð víst um að dýnan mín sé aðal-sökudólgurinn. Hún er alltof þunn og varla fyrir meira en sumarferðir. Snemma morguns vaknaði ég við dynki. Það var eins og einhver væri að hamast í stögunum á tjaldinu mínu eða e-ð að detta á það. Ég sofnaði þó aftur, enda dimmt. Seinna, um hálf-átta, vaknaði ég aftur við dynkina. Í þetta skiptið var orðið bjart og ég sá því hvað olli. Þetta voru laufblöð úr birkitrénu fyrir ofan mig. Hmmm. Ansi eru þau þung, hugsaði ég. Ákvað að kíkja út. Og viti menn. Alhvítt. Það hafði snjóað um nóttina. Og farið niður í -6 gráður þegar kaldast var. Laufið féll niður af greinunum á tjaldið með snjó. En dagurinn var fallegur og við fórum í göngu inn á Morinsheiði. Um kvöldið var grill, varðeldur, glens og gaman. Og það byrjaði að rigna, ansi mikið , svo ég nennti ekki með svefnpokann minn út í tjald og svaf inni þá nótt. Morguninn eftir fór hluti hópsins upp á Réttarfell og niður glæfralegt einstigi að Álfakirkju. Ég mæli með þessum hring. Útsýnið er stórkostlegt og stígurinn ævintýralegur, þó ekki fyrir mjög lofthrædda! Auðvitað var svo stoppað í Stakkholtsgjá.

Ég tók nokkrar myndir í ferðinni en hef auðvitað ekki enn drifið þær inn. Er hins vegar búin að gera myndirnar úr gönguferðinni vestur á Fjörðum aðgengilegar, ef e-r skyldi hafa áhuga að kíkja.

föstudagur, október 03, 2003

Þórsmörk


Ég kom mér frekar seint í vinnuna í morgun. Átti eftir að pakka niður fyrir Þórsmerkurferðina um helgina. Nú er allt klárt og ég meira að segja búin að setja nýjar rafhlöður í vasaljósið. Tek tjaldið með ef þarf. Hlakka mikið til að komast upp á fjöll í labb. Vera úti heila helgi.

Hef lítið afrekað í vikunni. Mér tókst þó að læsa bíllyklana einu sinni inni í bílnum. En það var ekkert alvarlegt því það var nú bara að kvöldlagi hér við Veðurstofuna svo ég gat gengið heim úr vinnunni og til baka morguninn eftir með aukalykilinn. Það er nú gott að búa í göngufjarlæð!
Er líka búin að finna íbúð. Hún er máluð í lítum svo ég býst við að þurfa að mála allt. Sé nú samt til hvort ég nenni því strax. Öll herbergin eru annars í mismunandi litum: mintugrænt, rautt, gult....