Valborgarmessa-vorkoman
Þá er vorið komið til Svíþjóðar. Í gær var Valborgarmessan og mikið húllumhæ. Í byrjaði morguninn snemma og hitti Mattías og Cedric kl. hálfníu. (Mattías Lindmann er frá N-Svíþjóð og talar íslensku, hann var skiptinemi heima, oftar en einu sinni... Cedric Schmelzbach er frá Sviss og tiltölulega nýkominn hingað í doktorsnám.) Við hjóluðum saman niðrí bæ til að fá gott sæti við árbakkann, við Fyrisåen. Svo var beðið til tíu en þá byrjaði "kappsiglingin". Kappsigling er nú kannski ekki besta orðið, stúdentar sem taka þátt gera sína eigin báta, furðubáta, fara í viðeigandi búninga, láta eins og fífl og reyna að komast klakklaust niður ána, en þó aðallega niður flúðir (sem eru í raun manngerður hallandi flötur). Og allir hafa gaman af. Síðan hittum við fleiri skólafélaga í bótaníska garðinum í hádeginu. Venjan er nefnilega að borða úti síld og snafs. Allir lögðu í púkkið og ég smakkaði ljómandi gott síldarsalat! Og sinnepssíld. (Ég borða venjulega ekki síld). Svo var vel við hæfi að smakka hákarlinn sem Pálmi og Kristín komu með og íslenskt brennivín. Við sátum þarna til að verða tvö. Þá tvístraðist hópurinn. Ég þóttist ætla í skólann og vinna (gerði auðvitað ekki neitt af viti) og missti þar með að rektorsræðunni og húfuveifingunni. Já, allir (stúdentarnir) safnast nefnilega saman fyrir framan Carolina Rediviva (aðalbókasafnið), hlusta á rektor flytja stutta ræðu. Svo veifa allir hvítu stúdentahúfunum sínum (sem við Íslendingar setjum upp við stúdentspróf og notum aldrei meir), setja þær upp og svo er "hlaupið" niður brekkuna og inn á nasjónirnar og skálað í kampavíni. Menn verða fljótt ofurölvi enda er byrjað snemma, kampavín og jarðaber í morgunmat meðan setið er við ána. Nasjónirnar eru annars átthagatengd stúdentafélög. Þannig var það a.m.k. í gamla daga en nú geta menn valið sér nasjón. Hér er sum sé ekkert félað stærð-og eðlisfræðinema.
Um kvöldið hjólaði ég út í Gottsunda í grillpartý til Kristínar og Pálma. Það er langt síðan ég hef skemmt mér svona vel. Og ég held að hinir hafi ekki haft minna gaman af. Mikið af góðum mat, mjaðmahnikkir og marenge-dans undir stjórn Davíðs frá Gvatemala, söngur, meiri dans, höfðu-herðar-hné-og-tær...
Ég vaknaði snemma í morgun. Rigningin úti var svo mikil og hávær að ég náði ekki að sofna. A.m.k. gafst ég upp eftir klukkutíma og ákvað að drífa mig í að þvo þvott. Í lyftunni var þvílíkur djammþefur og skítur. Öjjjjk og drasl og meiri djammlykt á göngunum. Drasl úti. Það hefur mikið gengið á í nótt. Samt voru nokkrir árrisulir stúdentar mættir að þvo, eins og ég. Ehhh, ég hélt ég yrði sú eina árrisula. Eftir allt þvottastússið dreif ég mig í regngallan og í skólann að vinna, þótt það sé 1.maí. Vinna vinna. En nú drífi ég mig heim og enda ætla ég að gera ostakökur fyrir morgundaginn. Namminamm. Vill einhver koma í kaffi?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli