Hjól
Í dag var þetta fína veður. Fínasta veður. Hlýtt og gott. Svo gott að mér var vel hlýtt þótt ég gengi/hjólaði um á ermalausum bol. Svíarnir, hins vegar voru enn í úlpum og með húfu/vettlinga. A.m.k. sumir þeirra. Uhh, er ekki allt í lagi með þá?
Ég fór í dag að kíkja á hjól sem ég hafði séð í fyrradag. Og endaði með því að kaupa það. Það er frekar nýlegt, en ekki með neinum gírum. En það er svo sem allt í lagi þessa tvo mánuði sem ég verð hér í viðbót. Það er allt önnur hjólamenningin hérna en heima. Heima léti varla nokkur maður sjá sig á gömlu görmunum sem mikill meirihluti fólks hérna er á. Ég get svarið það, sum þeirra líta út fyrir að vera hálfrar aldar gömul, algerir forngripir, en í ágætisstandi. Og þá auðvitað í góðu lagi að nota þau. Allir heima (langflestir) eiga fjallahjól (enda fæst varla annað nú orðið). Jafnvel þótt menn noti þau ekki nema endrum og sinnum að sumarlagi. Það léti varla nokkur maður sjá sig á gamalli, skröltandi druslu. Andrúmsloftið er afslappaðra hér.
Svipaða sögu hef ég að segja af því þegar ég fór í matvörubúðina einn laugardaginn úti í Gottsunda. Þetta var svona stór bónusbúð. Nema hvað það voru engar kerrur við búðina. Ég held þær hafi verið úti (samt er búðin inni í verslunarmiðstöð) og þar að auki læstar saman. Jæja, hvað með það. Ég tók bara tvær handkörfur og rogaðist um með þær. Þá tók ég eftir því að sumir voru mættir með gamla barnavagna eða kerrur og keyrðu körfunum um í þeim (og líklega matnum alla leið heim). Þetta fannst mér fyndið, en samt nokkuð sniðugt. Ég meina, af hverju að vera að rogast með poka ef til er auðveldari leið. En almáttugur, ekki myndi nokkur maður láta sjá sig með svona í Bónus heima, hvað þá Hagkaupum eða annars staðar. Uhh, alla vega ekki ég! -Og helst ekki á mikið skröltandi hjóli heldur. Mjög pínlegt.
Íslenskt neyslusamfélag er líka orðið meira "ameríkaniserað" heldur en hér. Hér eru stóru gosdrykkjaflöskurnar ekki 2l heldur 1,5l, eins og þær voru heima fyrir möööörgum árum. Auk þess er miklu meira um gömlu glerflöskurnar heldur en 1/2 lítra plastflöskur. Og ég held ég hafi bara ekki séð gosdrykk í 1/2 lítra dós. (Bara áfengu "gos-drykkina".) Það er langt síðan ég hef notað upptakara heima, enda drekk ég ekki bjór.