föstudagur, nóvember 26, 2004

Get ready for love


Jámm. Ég fékk loks nýja Cave & the Bad Seeds diskinn, Sláturhúsablús, í hendur á mánudag. Var ekkert alltof hrifin við fyrstu hlustun. Nema þá helst af fyrsta laginu, Get ready for love. Mér finnst annars vanta meira rokk í diskinn. Hinn, Lýru Orfeusar, hefi ég enn ekki gefið mér tíma til að hlusta á.
Anars er allt við það sama. Enn rignir.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Bloti


Enn einn rigningardagurinn. Enn snjórinn er óðum að hverfa. Fegin er ég. Þoli ekki slabb. Vil annaðhvort snjó eða ekki. Óþalandi að vera á ferðinni gangandi í svona drullufærð, bílarnir ausa yfir mann hroðanum.


Ég sá Bridget Jones-The edge of reason um daginn. HúnBridget er engri lík. Ég veltist um af hlátri. Þótti þó mest vænt um að heyra að hægt er að finna sanna hamingju þótt rassinn á konu sé á stærð við tvo keilubolta. Þvílíkur léttir;-o


Haustráðstefna Jarðfræðafélagsins var í gær, efnið var hafsbotnsrannsóknir á landgrunni Íslands. Fór og kíkti á fyrirlestrana, þótt ég hefði ekkert fram að færa. Langflestir voru áhugaverðir og skemmtilegir, vel unnir, fallegar myndir. Sáum líka neðansjávarkvikmynd af hverastrýtum í Eyjafirði.


Og að lokum, America's next top model! Ja hérna hér, og Yoanna vann! Ég er dulítið hissa. Var orðin nokkuð viss um að Shandy myndi vinna, þá hefði þetta nú orðið ekta Öskubuskusaga. En Yoanna átti þetta nú sosum skilið. Eða hvað finnst ykkur?

föstudagur, nóvember 19, 2004

Þriðji í tandoori-kartöflum


Á miðvikudag fékk ég matargest. Hafði ákveðið að elda tandoori-kartöflur með cummin-hvítlaukssósu. Mundi það rétt þegar ég sturtaði rúsínunum í pottinn að ég hafði séð viðkomandi pilla það sem hann hélt að væru rúsínur úr sætabrauði deginum áður. Hmmmm. Gaffallinn hans virtist mun gisnari en minn og rúsínurnar sem rötuðu á diskinn e-n veginn runnu bara í gegn. Það voru einmitt rúsínurnar sem settu punktinn yfir i-ið þarna. Ojæja. Vona að hann hafi ekki farið of svangur heim... Eldaði fullan pott svo nú er þriðji í kartöflum hjá mér, og enn nóg eftir. Vííí...



Óskaplegur kuldi er þetta. Og ég sem var farin að hlakka til vetursins snemma í sumar. Lét mig dreyma um logndrífu, nýfallna, dúnmjúka mjöll og stjörnubjartar nætur. Fussa svo núna yfir öllum þessum snjó. Ég var ástfangin þá, týnd í draumórum. Óskaplega getur ástfangið fólk verið vitlaust. Svíf ekki lengur á þessu bleika skýi óraunveruleikans. Veð svona meira í mýkrófísísku regnskýi, með fullt af holum í og er dauðhrædd við að detta niður. Það er vandlifað í þessum heimi!!!


þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Um alls ekki neitt...


Ohhh. Það er hrollur í mér. Fæ mér heitt te með mjólkurdreitli. Væri til í að sitja núna á ensku tehúsi og fá cream scones og góða kökusneið. Eða kúra uppi í rúmi með góða bók, vitandi að ég þyrfti ekki að gera handtak næstu vikuna.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Enn af sundi


Með góðfúslegu leyfi Hjörleifs set ég hér tengil á myndir frá komu sundmanna í land á Álftanesi á laugardaginn var. Brrrrr. Er fegin að hafa ekki þurft að svamla þarna í veðrinu sem var á sunnudag. Úfffff. Fleiri myndir eru væntanlegar á síðu sjónsundfélagsins næstu daga. Set inn tengil þangað þegar þær koma

sunnudagur, nóvember 14, 2004

meira sjósund


Langt er síðan síðast. Ég held að þessi síða sé svona smám saman að lognast út af. Ég hefi verið æ latari að skrifa um það sem á daga mína drífur.
Varð þó að monta mig smá. :-) Þar sem ég stóð dauðleið í Öskju að kynna verkefni mitt í nær mannlausu húsi á föstudaginn var, fékk ég símtal. Forsprakki sjósundfélagsins bað mig um að taka þátt í Bessastaða-boðsundi á laugardag, sum sé í gær. Hmmm. Ég var nú ekkert sérlega spennt. Komið fram í nóvember, soldið farið að kólna...
Það varð þó úr að ég dreif mig. Og sé ekki eftir því. Hver synti 5-7 mínútur í 4,2 stiga köldum sjónum. Skalf ógurlega í bátun að loknu sundi og á leið í land. Fékk þó í mig hita í sturtunni og af teinu og rjómapönnsunum hjá Dorrit og Ólafi. Reyni að finna myndir e-s staðar af þessu þrekvirki, annars var þetta allt saman myndað alla leiðina, jiii, hver veit nema búin verði til mynd...