mánudagur, ágúst 23, 2004

Of mikið hvítvín?


Grillaða keilan bragðaðist stórvel á föstudaginn var. Ekki var verra að eiga gott hvítvín með. Hálfflaska dugði til að gera mig vel hífaða, enda var ég vel þyrst og svöng eptir sundæfinguna. Í þetta skiptið tók ég engin andköf þegar ég fór út í og gat líka bleytt hausinn (dulítið átak) og synti aðeins skriðsund. En aptur að garðfundinum. Var búin að kaupa snúsnú-band á kostakjörum og nokkrir nenntu að hoppa með mér. Muniði eptir ,,einn upp í tíu og tíu nið'rí einn, öfugt niður''? Tókst þetta þrátt fyrir hvítvínið. Áfram var haldið í heimahús þar sem rabbað var fram til þrjú. Gestgjafar voru ekki sparir á veitingar, smakkaði tvenns konar líkjör og fékk svo nattemat. Komst heim að lokum. En mói var skilinn eptir. Ég þurfti því að rúlla á hjólinu inn í Reykjavík á laugardag. Ég rétt kíkti á menninguna með Kötu og Berglindi, kom svo við úti í Háskóla og horfði á tilraunir eðlisfræðinema til að koma loptbelg á lopt, að sjálfsögðu. Nú, e-ð gekk þetta brösuglega, því ekki vildi belgur litli upp, heldur skreið hann hraðbyri lárétt í átt að einbeittum Tai Chi iðkendum. Strákarnir töguðu þó í snúrurnar í tæka tíð svo enginn valt um koll. Þetta var samt svolítið skondið.
Kata hélt kveðupartý um kvöldið. Þar var mikið fjör og dansað út í eitt. Eftir smá kvartanir nágranna var haldið um þrjú-leytið niður í bæ. E-ð var ég búin að torga of miklu hvítvíni, því í þetta skiptið var heil flaska tekin með, og mér leið ekkert alltof vel í stöppunni og reykmettuðu loftinu á Ölstofunni. Fór því fljótlega út og fékk far heim. Ég hef nú vaknað hressari klukkan níu á sunnudagsmorgni. Hmmm, þó öngvir timburmenn. Ég afrekaði því lítið í gær, annað en að skoða íbúð og tína rifs-og sólber til sultugerðar. Sofnaði að lokum værum svefni yfir fimleikunum í gærkvöldi. Jamm, og þetta var helgin í hnotskurn.

Engin ummæli: