Inn í vog
Og enn af sundi. Ég dreif mig á þriðju æfingu í gær (ég hugsaði með mér, ahhh, ef ég nenni ekki mikið oftar í haust, þá er allt þegar þrennt er). Að þessu sinni var synt inn voginn. Fórum þrjú alla leið inn í botn og til baka. Vorum held ég um 70 mínútur í sjónum og ég held að þetta séu um 2,5 km fram og til baka. Þar með er ég búin að slá persónulegt met! Vei vei, og held ég nenni ekkert að vera að toppa það á þessu ári. Ég var farin að finna vel fyrir kuldanum í lokin. Eftir svona 40 mínútur fann ég að mér var aðeins farið að kólna á tánum. Svo færðist doðinn í yljarnar. Að lokum voru fingurnir orðnir svolítið stirðir og fæturnir hvítir. Skelltum okkur aðeins í pottinn í fjörunni í Nauthólsvíkinni og svo inn í sturtu þar sem ég byrjaði loks að skjálfa og skjálfa, en líf tók að færast í alla skanka. Kom við í vinnunni og hellti í mig kakóbolla áður en ég fór heim, og hætti að skjálfa. Er bara hin hressasta í dag, vona ég hafi ekki náð í kvef af öllu volkinu.
Það var annars feykigaman að fylgjast með stangarstökkinu í gærkvöldi. Þórey stóð sig vel, en það var líka gaman að sjá ólympíumeistarann svífa yfir í síðasta stökkinu. Þvílíkir tilburðir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli