Skíðahelgi
Hó, hó. Smá tíst eftir langt hlé.
Annan í nýári skrifaði ég langa færslu um flutinga og áramótagleði en tókst klaufalega að tapa henni. Líklega var ég utan við mig sökum þreytu og svefnleysis. Já, ég fékk sum sé jólakvefpestina á annan í jólum, mætti í vinnuna um jólin og helgina á eftir, flutti út úr íbúðinni og þreif á gamlársdag og dansaði með Gerðu Björk og vinkonu hennar í Iðnó til sex á nýársnótt. Nei, í minni fjölskyldu láta menn ekki stíflað nef og smá slappleika hafa af sér svona skemmtun. Það var stórgaman, hitti líka hina og þessa sem ég hef ekki séð lengi, m.a. hana Rósu, bekkjarsystur mína úr MR, nokkta bekkjarbræður og núverandi og fyrrverandi vinnufélaga.
3. janúar hittist saumaklúbburinn svo hjá Arnþrúði í Hafnarfirðinum og raðaði í sig sex rétta máltíð með erfiðismunum.
Síðan voru skemmtistaðirnir í Rvk kannaðir. Enduðum á Sólon. Ég gafst upp rúmlega fjögur og ók heim. Held það sé bara ágætt að ég fari svona sjaldan á næturrölt. Tvær ferðir fram á morgun með þriggja daga millibili voru eiginlega of mikið. Ég á nefnilga ægilega erfitt með að sofa lengi út og finnst synd að missa af bjartasta tíma dagsins. Þarf því svolítið lengri tíma á milli til að ná úr mér þreytunni.
Um helgina dreif ég mig á skíði. Á laugardag bauð ég pabba með mér upp í Bljáfjöll. Pabbi hefur ekki stigið á skíðin sín í, ja, 12-13 ár. Ég stakk hann af uppi á Heiðinni háu. Sagðist ætla smá útúrdúr. Þegar Þangað var komið sá ég að lengri brautin lá þar upp að svo ég ákvað að fylgja bara henni, ætlaði svo að ná pabba þar sem brautirnar liggja aftur saman. Kom að bílnum og beið líklega í klukkutíma. Var orðin ansi hrædd, enda komið él, og var viss um að hann væri að leita að týndri dóttur uppi á heiðinni. Var búin að spyrja hina og þessa hvort þeir hefðu séð pa. Spennti loks aftur á mig skíðin og lagði af stað í björgunarleiðangur. Ég var ekki komin langt frá bílnum þegar pabbi birtist. Hann hafði þá líklega valið stærri hringinn og var örmagna, hafði ekki einu sinni rænu á að skipta um skó, ganga frá skíðunum eða vera reiður. Og ég lofaði að passa betur upp á hann næst!!!
Í gær ákvað ég svo að fara með Ferðafélaginu, í von um að komast e-ð lengra. En menn töldu ólíklegt að nægur snjór væri uppi á Hellisheiði eða í Henglinum svo ákveðið var að fara upp í Bláfjöll. Við tókum þar e-a útúrdúra svo þetta varð bara ágætisferð. Er svolítið lúin og löt í dag, með smá harðsperrur í rassinum, enda langt síðan ég steig á skíðin síðast. Stefni á að koma mér í fínt skíðaform svo ég geti farið í almennilega páskafer í ár. Er strax farin að hlakka til!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli