Af dansæfingum, vettvangsferðum og öðru ómerkilegu
Þá er ég komin aftur heim frá Geysi. Kom á mánudaginn var. Ég er búin að vera ægilega tuskuleg síðan, enda var hangið á barnum á næstum hverju kvöldi og alltaf vaknað snemma til að hlusta á fyrirlestra eða til að fara í vettvangsferðir. Á leiðinni austur var auðvitað stoppað við Nesjavelli og á Þingvöllum. Einnig var stoppað við Kálfstinda (móbergshrygg) til að skoða mannvistahelli og fallegt bólstraberg. Við komum að Geysi um hádegi, fengum hádegismat, komum okkur fyrir og svo var hlustað á tvo fyrirlestra, kaffipása og svo kíkt á hverasvæðið. Næsta dag voru fyrirlestrar fyrir hádegi og eftir hádegi kynnti fyrsti hópurinn af fjórum veggspjöldin sín. Þar á meðal var Kristín Jóns. Á miðvikudegi var farið í langa vettvangsferð um eystra gosbeltið. Við ókum inn í Þjórsárdal, áfram norður fyrir Búrfell og fórum þar yfir Þjórsá. Síðan var ekið inn að Heklu og svo Dómadalsleið inn í Torfajökulsöskjuna. Stoppuðum hér og þar á leiðinni og gengum lítinn hring í Landmannalaugum (inn í Grænagil, að Brennisteinsöldu og meðfram Laugahrauni að skálanum) því sólin var svo vinsamleg að láta sjá sig þar. Annars rigndi eldi og brennisteini (eða svona næstum því!). Ég kom í Eldgjá og upp að Ófærufossi í fyrsta skipti. Því næst var ekið suður í Vík og þar borðuðum við fínasta kvöldmat og skoðuðum sögusafn. þetta var langur dagur, við komum ekki heim fyrr en hálf-tólf. Næsta dag kynnti ég pósterinn minn. A4-stærð á PostScript formi má nálgast hér. Nú nú, á föstudegi skoðuðum við sprungur á Suðurlandi undir leiðsögn Páls Einarssonar. Mér fannst sérlega gaman að sjá sprunguna við Seltún (nærri Heklu) en hún myndaðist í stóra skjálftanum 1912, mig minnir að hann hafi verið um 7 að stærð. Það er sjaldgæft að svona stórir skjálftar verði þetta austarlega. Skoðuðum líka fleiri sprungur vestar. Það gekk á með þungum skúrum. Mjög þungum! Næstu tvo daga tóku við fyrirlestrar og kynningar á veggspjöldum, át og meira át. Já, það væsti ekki um okkur á Hótel Geysi. Fengum heitar máltíðir tvisvar á dag, kaffi og meðlæti, gátum farið í sund og heita potta, og á barinn. Ég var farin að hafa svo miklar áhyggjur af öllu þessu áti og hreyfingarleysi að ég brá mér í fjallgöngu næstsíðasta daginn. Þá var sólin loksins farin að skína. Ég fór upp á Bjarnarfell og fékk þetta líka fína útsýni yfir allt, Langjökul, Jarlshettur, Bláfell, Kerlingarfjöll, Heklu, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og Þríhyrning, svo það helsta sé nefnt. Daginn eftir (á mánudaginn var) yfirgáfum við svæðið og ókum út á Reykjanesskaga og skoðuðum þar misgengi og ganga undir leiðsögn Amy Clifton. Um kvöldið var svo kveðjukvöldverður á Iðnó.
Nú er öllu lúxuslífi lokið í bili og grámygla hversdagsleikans tekin við. Það er svolítið erfitt að koma sér aftur inn í gömlu rútínuna.
Á þriðjudagsköld var fyrsti danstíminn í fönk- eða götudansinum sem við stöllurnar úr saumaklúbbnum (Berglind, Kata, Arnþrúður og Ella) vorum búnar að skrá okkur á. Mér brá svolítið þegar ég sá fræga söngkonu smeigja sér í gegnum búningsklefann og inn í salinn sem námskeiðið mitt var í. Þegar ég kom þar inn var þar önnur sönkona stödd, ásamt hinum sem áttu að vera með mér á námskeiðinu. Ég gat engan veginn fylgt með í tímanum, kennarinn fór alltof hratt yfir fyrir minn smekk. Var alveg eins og idjót. Úff. Þetta var svona svipað og þegar við Stína fórum í "advanseraða", sænska pallatímann úti í Uppsölum. Þótt mig hafi dreymt um að vera með stelpunum á námskeiðinu síðasta vor og hlakkað mikið til, hef ég ákveðið að ég láti hér staðar numið á þessum dansferli mínum og láti ekki sjá mig þarna aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli