fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Veggspjaldið


Hæ, hó. Er enn í vinnunni. Hvar annars staðar? Er að reyna að klára veggspjaldið. Er nú orðin reynslunni ríkari við notkun xfig. Verð kannski aðeins fljótari næst...
Annars tekur það ansi langan tíma hjá mér að berja saman e-n texta. Mér þykir æði erftitt að finna réttu orðin (eða bara e-r orð), orðaröð, hvað ég á að segja. Hvaða stafastærð... bla bla... Ætla núna að rembast við að fylla út i síðasta textaboxið.
Er orðin ægilega svöng. Fékk mér tebolla. Á bréfinu utan af pokanum stóð: Great things are made of little things. Bara nákvælega það sem ég er að gera núna. Sniðugt.

Meðan ég man. Fyrir þá sem lesa þetta, hafa unnið á Veðurstofunni og langar til að sjá myndir af fyrrverandi samstarfsmönnum sínum:
Myndir af bjórfundi...

mánudagur, ágúst 25, 2003

Hitasvækja


Maður, maður, úff, það er heitt úti! Mælirinn úti í reit sýndi 16,6°C þegar ég mætti í vinnuna áðan, hjólandi. Ég hefði betur farið í stuttbuxur og tekið e-ð annað en svarta peysu og klút um hálsinn til að vera í/með í dag. Ég mætti líka í vinnuna í gærkvöld. Þegar ég gekk heim rúmlega níu var svo hlýtt að það var vel hægt að vera á ermalausum bol. Mér leið svolítið eins og ég væri í borg í útlöndum. Það kemur svo sterk lykt í loftið að gróðrinum (og ýmsu öðru reyndar) í svona ,,hita''.

Nú er mikið stress í gangi hjá mér. Það virðist ganga alveg ægilega hægt að klára allt sem á að fara á veggspjaldið. Í gærkvöldi varð mér svo loksins e-ð ágengt, fann villu í kortateikniskránni eftir margra daga leit. Þrátt fyrir stress í vikunni leyfði ég mér nú samt að taka þátt í smá gleðskap hér við Veðurstofuna á föstudagskvöld, enda veðrið þá með eindæmum gott. Bjórvinir VÍ héldu sinn árlega garð- og grillfund. Menn átu grillað góðgæti, sötruðu bjór, sumir fóru í snú snú og enn aðrir heilluðu liðið með breikdansi. Og nú skal í bara drífa í að setja inn myndir á morgun. Líka úr gönguferðinni. Ég var búin að fá nóg klukkan tíu (enda byrjaði gleðskapurinn snemma) og hjólaði þá heim. Þeir hörðustu þrömmuðu á Kringlukránna og dönsuðu víst fram á rauða nótt.

laugardagur, ágúst 23, 2003

Jarðskjálftar við Krísuvík og Kleifarvatn


Í morgun vaknaði ég seint og um síðir (þ.e. um níu leytið) og þrammaði með Týru út í bakarí. Síðan var ryksugunni sigað á teppið. Þegar ég var nærri búin hringdi mamma og sagði mér að hún hefði vaknað upp í nótt við jarðskjálfta. Sjálf svaf ég á mitt græna. Hafði verið í grillpartýi hér við Veðurstofuna í góða veðrinu til klukkan 10 í gærkvöldi (garðfundur Bjórvinafélagsins). Er komin í vinnuna. Það er nóg að gera. Kortið er ansi fjörugt. Kíkið á sjálfvirku staðsetningarnar. Stærsti skjálftinn var rúmlega fimm, 7 mínútum síðar kom annar tæplega 4, kl 02:14 2,8, 02:22 annnar 2,8 o.s.frv. Meira síðar, ætti að fara að koma mér að verki.

sunnudagur, ágúst 17, 2003

Enginn svefnfriður


Hæ, hó, fréttir af skjálftavaktinni...

Lítill svefnfriður þessa helgina. Var ræst út klukkan rúmlega fimm í gærmorgun. Og svo aftur að verða eitt í nótt, einmitt þegar ég var nýkomin upp í rúm og búin að koma mér þægilega fyrir með Harry Potter. Bara gagnavesen. Kom í nótt og reddaði málunum. Nú virðist ég ekki eiga að komast heim eða út í sólina vegna enn meira vesens. Ohhh. Tölvudruslur. Af hverju getur þetta ekki bara gengið eins og smurt?

Kíkti á menninguna í gær. Dansaði og söng með Stuðmönnum á útitónleikum Rásar 2. Frábær flugeldasýning í lokin. Komst svo að lokum í gegnum þvöguna að hjólinu mínu og brunaði heim og varð á undan þeim sem voru á bíl. Bara svona rétt að hita upp fyrir fyrirtækja keppnina í þessari viku. Allir á hjóli í vinnuna!!!!! Víiíí.

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Nammismjatt!


Já, nammismjatt (eins og Sigga Sif segir). Var að fá skúffuköku með rjóma í kaffinu.

Annars er það af mér að frétta að ég sit hér vaktina þessa vikuna. Ég get því ekki stungið af austur í góða veðrið um helgina. Er heldur ekkert ofsalega kát. Kannski er það sem amar að mér bara stress. Er svo sem nokkur að ætlast til þess að menn séu í góðu skapi alla daga?

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Blíða og meiri blíða


Sæl, öllsömul.

Vissuð þið að það er stórgott veður úti? Ég vissi það ekki, fyrr en ég stalst út í fimm mínútur áðan... Nú væri ég alveg til í að vera í fríi, uppi á fjöllum, eða bara liggja í leti part úr degi niðrí í Nauthólsvík. (Mælirinn úti í reit sýnir 15,2°C og 4,2m/s úr VNV).

Er á vakt þessa vikuna. Ferðasagan og myndirnar að vestan verða að bíða betri tíma.