þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Megametrar á sekúndu, viður og hillufestingar


Úffff, það var sko þokkalega hvasst þegar ég kom hérna út af Veðurstofunni í gær. Skv stöðvarritinu komst vindhraðinn upp ca. 27m/s í mestu hviðunum (10 vindstig gömul). Það er ekki skrítið að hjólið var næstum hrifsað af mér og ég átti bágt með að halda mér á göngustígnum og var orðin vot inn úr eftir nokkrar mínútur. Ég fæ samt alltaf svolítið "kikk" út úr því að berjast við svona brjálað veður. Finnst ég mikil hetja meðan aðrir kúra sig inn í bílunum sínum. -Ég býst þó við að ég myndi gera slíkt hið sama ef ég ætti einn!


Þegar ég komst heim dreif ég í því að skipta um föt og svo drifum við okkur (á bílnum auðvitað) enn eina ferðina í BYKO. Um þessar mundir hef ég afskaplega gaman af að fara í allar byggingarvöru og flísaverslanir og láta mig dreyma um ýmsar breytingar. Að þessu sinni vorum við að leita að heppilegu hilluefni og festingum. Ég fékk nefnilega leyfi fyrir því að setja upp einfalda hillu í eldhúsgluggann. Ég er að hugsa um að taka gardínurnar niður líka (svo að birtan flæði inn í rýmið, sko). Við fundum að rælni svolítið skemmtilega fjöl með berki á köntunum og misbreiða. Hún var í draslhrúgu og við fengum að taka hana með okkur. Keyptum svo lítið messing-vinkiljárn til að festa hana með og viðarolíu. Fjölin var hefluð í gærkvöldi og nú á bara eftir að pússa hana svolítð og bera viðarolíu á. Ég er spennt að sjá hvernig hún kemur út.

Engin ummæli: