þriðjudagur, apríl 28, 2009

Fjallganga.
Við Sigga Sif Tókum góðan 3,5 klst hring í Esjunni í gær. Fórum ásamt tveim öðrum sem voru tímabundin og snéru við í miðjum hlíðum. Hvað ætli bærist í kollinum á fólki sem þrammar upp í mót yfir hjarnbreiðu efst í Gunnlaugsskarði? Ég komst í trans og ákvað að setja saman þulu:

Ég gekk upp á stein
og hitti þar fyrir svein.
Sveinninn rak mér koss
tókust ástir með oss.
Hentumst út í mó,
köstuðum af okkur skó.
Um haustið varð eg þyngri,
ég er nú ekkert að verða yngri!
Sveinn lét ekki sjá sig
er ég varð mikil um mig.
Ég ól svo litla stúlku
og gekk með hana á púlku,
yfir fannir breiðar,
út um holt og heiðar.
Hún varð seinna stór
og söng í stórum kór.
Fór svo út í heim,
og hitt þar sinn svein.
Sá var betri en minn,
og elskaði svannann sinn.
Nei, ég varð aldrei frú
og svona fór sagan sú.

Þetta myndi nú seint teljast til tímamótakveðskapar, en ég gleymdi mér a.m.k. um stund.
Er upp komum við úr skarðinu hálf-hlupum við yfir hjarnbreiðuna, sem hafði þiðnað ögn í sólskinunu fyrr um daginn. Fórum svo niður af Þverfellshorni og komum rúmlega tíu í bílinn. Enn var þá fólk á leið upp á fjallið.

mánudagur, janúar 05, 2009


Ég á lítinn fjörkálf sem virðist við fyrstu sín afar saklaus en látið ekki plata ykkur! Hann er afar liðtækur í fjölbragðaglímunni á morgnana. Það er líka svo erfitt að vakna í þessu skammdegi. Þótt snjóleysið geri allt svo miklu auðveldara á morgnana verða dagarnir svo ferlega drungalegir!