sunnudagur, mars 18, 2007

Mamman litla í Meðalholti


Það getur verið ótrúlega frústrerandi að vera loks búin að finna tíma til að skrifa langa færslu, með fullt af myndum og tilheyrandi skemmtilegheitum og láta svo blogger týna öllu saman. Nú geri ég aðra tilraun...

Tíminn flýgur áfram og alltaf dregst það að segja koma með fréttir af (ekki lengur) óléttu konunni í Draslarakoti (fyrrum kassakoti). Í fréttum er það næsthelst að kössunum uppi hefur fækkað ótrúlega og ýmislegt komið á sinn stað. Því miður eiga þó allt of margir hlutir ekki enn sinn stað og er því ýtt herbergi úr herbergi.

Merkilegri fréttir eru þó þær að ólétta konan lét loks til leiðast og samþykkti að fara upp á fæðingardeild um tíu-leytið miðvikudagsmorguninn 28. febrúar. Hún heimtaði þó að vaskað yrði upp áður. Það er svo leiðinlegt að koma heim í drasl OG fullan vask af óhreinu leirtaui. Hún sá þó ekki um uppvaskið sjálf þann morguninn, heldur lét íbúðareigandann um verkið. Sjálf gekk hún um inni í svefnherberg, hálf-skælandi af verkjum, ósofin og prjónandi milli hríða. Sem voru orðnar reglulegar og tíðar.

Ólétta konan hafði annars kennt fyrstu verkja aðfararnótt þriðjudags. Hún ákvað að fara eftir leiðbeiningum og halda áfram daglegum störfum næsta dag. Dagleg störf þann daginn fólu í sér vandleg þrif og tiltekt í svefnherbergi og stofu (það var líka þurrkað af ofninum). Hún setti líka upp rúmið fyrir ungann litla sem von var á. Hún þvoði þó ekki bílinn aftur. Þegar loks var komið að eftirmiðdagsdúrnum þann daginn var kominn tími til að fara í afmælismat til tengdó. Það var verr, því eins og fyrr segir varð hún af svefninum nær alla næstu nótt.

Gerum langa sögu stutta. Fæðingin var nær hálfnuð þegar komið var upp á spítala svo ég var ekkert send heim. Allt gekk áfallalaust (en ekki átakalaust!) og sveinninn ungi fæddist svo rétt fyrir sex síðdegis:

Hann var langur og grannur, 52 cm og 3400 g, eftir smá sopa:


Við fengum að vera tvær nætur í Hreiðrinu, þar sem snáðinn litli fæddist og fórum heim á föstudagsmorgni. Þá var gott að mamman litla var tilbúin með hitt og þetta heimaprjónað á frumburðinn...


Já, og hann er náttúrulega laaang-langsætastur. Eða það finnst mömmu litlu að minnska kosti;-)

Engin ummæli: