mánudagur, september 18, 2006

Huhh, svo gleymi ég að minnast á Nick Cave! Við fórum sum sé öll saman, fjölskyldan að bera ofurtöffarann augum. Sátum uppi í stúku. Ég var bara frekar ánægð með tónleikana, þótt ég sé reyndar svolítið sammála Hjörleifi með það að það hefði stundum verið skemmtilegra að heyra meiri melódíu frá píanóinu og minna glamur. En Nick tók óskalagið mitt, þótt ég hafi ekki æpt það yfir skrílinn: Rock of Gibraltar. Og gerði það stórvel;-) Ég var reyndar líka að vonast eftir Henry's Dream. En hva, það er víst ekki hægt að fá allt!

sunnudagur, september 17, 2006

Fréttir?



Ég gerði þessi líka reyfarakaup í gær: Eftir að hafa farið marga, marga hringi í Stóra Gólfefnamálinu (eldhúsið mitt, holið, hef hlíft ykkur alveg við öllu því rugli) dreif ég mig í Húsasmiðjuna og keypti mér plastparkett á útsölu. Fyrir valinu varð hvíttaður askur, ef ég man rétt. Nú þarf ég bara að finna tíma til þess að koma þessu á gólfið! Hvar sá tími er, veit ég ekki...

Nú, að öllu skemmtilegri hlutum: Örlitlar fréttir sem hafa kannski ekki borist til allra minna bestu vina:

Ábending 1: Tvö hjörtu slá næstum því í takt; annað bara helmingi hraðar en hitt.
Ábending 2: Langtímaverkefni.
Ábending 3: Fékk smá aðstoð;-)

Af frekari afrekum mínum er annars lítt að frétta. Nema ef vera skyldi að þið hefðuð e-n áhuga á prjónaskap;-) (Tengill til vinstri...)

mánudagur, september 04, 2006

Viðbrennt uppstúf í massavís og enn fleiri mistök


Það er víst ekki alltaf nóg að láta sig dreyma um hlutina. Ég fór því heim á fimmtudaginn var, setti bjúgun og kartöflurnar í pott og tók til við að gera uppstúf, í fyrsta sinn á minni annars viðburðaríku ævi! Nú, þeim sem til mín þekkja finnst ég yfirleitt vera ansi þolinmóð, einkum er kemur að handavinnudútli. En þegar kemur að eldamennsku... Mér finnst yfirleitt tímasóun að standa yfir pottunum, a.m.k. er það ekki alltaf það skemmtilegasta sem ég geri. Mér tókst sum sé að brenna uppsúfið, heldur betur. Afraksturinn voru tvær fullar skálar af óætri hveitisósu og mjög svo svartar skófir í pottinum. Þar sem Böðvar var ekki kominn enn tók ég fram stálullina og byrjaði upp á nýtt. Það er ekki hægt að hætta á miðri leið...

Nú. Eftir matinn fór ég að huga að því að ljúka skrautritunarverkefninu. Það vantaði aðeins punktinn yfir i-ið, smá skraut neðan við textann, er ég uppgötvaði ,,smá'' mistök. Það vantaði eitt té í ljóðið

Þú sem kveikir ástareld...
í stað
Þú sem kveiktir ástareld...

Smávægileg mistök? Veit ekki. Böðvar fór með mér á rúntinn og við reyndum að finna aðra eins minningarbók. Fórum í þrjár bókabúðir en án árangurs. Var orðin heldur stressuð en ákvað að redda þessu morguninn eftir og mæta klukkan átta í Pennan í Hallarmúla.

Bókin var ekki til þar heldur. Og ég átti að skila af mér þennan sama morgun. Ég rauk heim í ofboði og ákvað að skrifa á karton og líma yfir. Þá uppgötvaði ég önnur mistök, sem ég vildi alls ekki að nokkur sæi: Ég hafði af e-m undarlegum ástæðum skrifað vitlaust millinafn í bókina. Í snarhasti hætti ég við kartonið og tók fram dúkahnífinn. Það var lítið mál að skera fyrstu síðuna snyrtilega úr og með mikilli einbeitni og hæfilegu stressi tókst mér að skrifa allt saman upp á nýtt, áfallalaust.

Ég slapp með skrekkinn.

Og sultaði af miklum móð um helgina. Ég á nú 13 krukkur af dásamlega fallega rauðu rifsberjahlaupi og svolítið af sólberjum fyrir sultu. Eins gott því ég þarf að fóðra heilann vel af sykri fyrir næsta verkefni. Það er nokkuð víst.