...En krúttið mitt ég vil þig, því hugur þinn er svo ofboðslegt flæmi!
Ég sat hér á vakt um helgina, potaði í nokkrar stöðvar og pikkaði skjálfta með Megas í eyrunum. Gluggi skrifstofu minnar veit að mælireitnum, sem er snævi þakinn um þessar mundir. Ég var fegin að komast út upp úr hádegi og hóaði í Böðvar og Berglindi. Skíðin voru sett í bílinn og svo var brunað upp í Skálafell. Við fundum nægan snjó meðfram veginum upp að möstrum. Púluðum áleiðis upp brekkuna og renndum okkur svo niður. Á leiðinni reyndum við Þelamerkurbeygju til hægri. Vinstri beyjan var ekkert æfð í þessari ferð; til þess hefðum við þurft að fara yfir veginn.
Aumingja Böðvar, fær ekkert kjet hjá mér! Ég eldaði grænmetissúpu á föstudagskvöld og bauð vinkonu minni og unnusta hennar í mat. Eftir skíðaferðina á laugardag gerði ég grænmetisböku. Ég var líka búin að skipuleggja matarboð á sunnudagskvöld og gerði fiskisúpu og gúmmulaðisúkkulaðikökur með hindberjasósu. Reyndi að hafa það svona í fínna lagi, því foreldrar Böðvars og mater komu í mat. Held þetta hafi heppnast ágætlega, nema það var fátæklega lítið af fiski í súpunni. Kona verður nú að reyna að sýnast svolítið húsmóðurleg, er það ekki? Slatti af uppvaski bíður mín heima núna. Jei...