Tíminn líður. Sumarið leið hjá án þess að ég næði að gera helming af því sem ég ætlaði mér. Fyrr en varði kom haust, með enn meira stressi, og áður en september er liðinn er farið að vetra hér líka. Mér brá heldur betur í brún er ég var á leið heim frá Danmörku á miðvikudagskvöld og flugstjórinn tilkynnti slydduél og tveggja stiga hita heima!Fyrr um daginn hafði ég strunsað um miðbæ Kaupmannahafnar, á stuttermabol, sveitt og með poka í höndum. Já, ég ákvað að ljúka sumrinu með því að bregða mér í langþráða heimsókn til tveggja vinkvenna í Árósum. Ég fékk þokkalegt verð á fari í september og kíkti á Söndru Sif, vinkonu úr MR, sem var að ljúka læknanámi í janúar, síðastliðinn, og er nú á kandítatsárinu, trúlofuð kærasta sem ég hafði aldrei séð og farin að skipuleggja flutning suður að landamærum Dk og Þýskalands. Gerðu Björk, vinkonu úr HÍ, heimsótti ég líka og saman röltum við allar um bæinn, kíktum á Aros, listasafnið í bænum, alveg geypilega góðan brönsj í latínuhverfinu, fórum í bíltúr til Ebeltoft á nýju drossíunni þeirra Söndru Sifjar og Bjarka, fengum okkur cosmópólítan (ég í 1. skipti!) á voða hipp og kúl bar í Árósum, út að borða á skemmtilegan fjúsjón stað, Le Basilic (en þangað mega matargestir taka með sér vín, því það er ekki selt á staðnum) og síðast en ekki síst var rætt fram og til baka um alls konar stelpustöff og tabú;-) Ég tók svo lest á miðvikudagsmorgun til Kaupmannahafnar og strunsaði (eins og mér er lagið) fram og til baka um Strikið og nágrennið, og bætti náttúrulega aðeins á pinklana! Tók svo kvöldflugið heim í kuldann. B var svo sætur að koma og sækja mig. Hann fékk reyndar nokkra pakka og fullt af knúsi fyrir vikið!
Reyndar hefur B nafn. B er sko ekki Big. B vinnur ekki á Orkustofnun (systir hans er reyndar þar:-o). B er ekki einu sinni jarðeðlisfræðingur! Neibbbs, B heitir Böðvar. Í Böðvar krækti ég (uhh, eða hann í mig) í brúðkaupi æskuvinkonu minnar í maí. Hún laumaði því að mér að maðurinn hefði gaman af að ganga á fjöll og fyrnindi og væri ábyggilegar tilvalinn fyrir mig. Mér fannst þess vegna allt í lagi að gefa mig á tal við hann. Það virðist hafa virkað, því við höfum talað heilmikið saman síðan þá. Erum núna byrjuð í dansi, þeytumst um gólfin í djæf, chacha og vals. Maðurinn er bara þessi líka fíni dansari!
Við skelltum okkur í berjaferð á Snæfellsnesið í lok ágúst. Týndum glás af bláberjum. Og ég sultaði. Á núna heil ósköp af bláberjasultu, krækiberjahlaupi, rifsberja-bláberjasultu, rifsberjahlaupi og sólberjasultu. Þvílíkur dugnaður. Ég vildi að ég væri jafn-dugleg að mála eldhúsið hjá mér. Eða að skrifa ritgerð og greinar.
Sit núna í vinnunni og hlusta á Gotan project, æðislegan tangó-electró disk sem ég heyrði úti hjá Söndru Sif og keypti hið snarasta. Er vonandi komin í ágætis skrifham og ætti að geta drifið Jökul-greinina af í snarhasti fyrir kvöldmat.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli