þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Af aulahætti og fyrri hetjudáðum


Um helgina lágum við í makindum seint á laugardagskveldi og horfðum á e-a bíómynd, sem ég get ekki fyrir mitt litla líf munað um hvað snerist. En það er nú heldur ekki aðalatriðið. En í myndinni var sýnt frá útför háttsetts hermanns. Verið var að brjóta saman fána á kistu mannsins þegar ég sé hvernig þeir fara að við verkið og hrópa upp yfir mig: Nei sko, þeir brjóta fánann alveg eins og ég brýt plastpokana! Böðvar skellti upp yfir sig, átti ekki orð yfir bjánaskapnum í mér og spurði mig hvort ég vissi virkilega ekki hvernig fánabrot væri.

Hvernig í fjandanum átti ég að vita það. Ég hef aldrei verið skáti. Og fánastöng var aldrei til á mínu heimili. Ég hef heldur aldrei unnið í Nóatúni, IKEA eða nokkurri annarri verslun þar sem fánar eru dregnir að húni hvern morgun. (Hef reyndar aldrei unnið í verslun en það skiptir ekki höfuðmáli hér.) Ég var hins vegar frekar sár yfir því að gert væri grín að mér (vegna þess að ég á að vita allt). Er þetta annars almenn þekking? Hvernig brjóta skuli saman fána? Eða er þetta e-ð sem allir strákar kunna? Ég lærði aldrei lífsleikni í skóla. Ætli fánabrot sé ekki tekið fyrir þar. Pokabrot kannski líka. Líklega.

Ég eyddi ekki mörgum stundum í nóvembermánuði í að skrifa á bloggið. En þeim mun meiri tími fór í að lesa gamlar færslur. 13. nóvember síðastliðinn stóð ég undir sturtunni, á leið í meðgöngusund, í upphitaðri innilaug. Mér var kalt og hugsaði með hryllingi til þess að nákvæmlega tveimur árum áður hafði ég verið á svamli úti í Skerjafirði á leið á Bessastaði! Jaháá, þá var nú meira um hetjudáðir. Ég myndi sko ekki hafa látið hafa mig út í þess konar ævintýri í ár. Onei. Enda mun meiri frosthörkur þennan mánuðinn en fyrir tveimur árum. Svo efast ég líka stórlega að laumufarþeginn hefði verið nokkuð hrifin af slíku uppátæki. Verandi afkvæmi föður síns (sem er víst ekkert allt of hrifin af of köldu eða of heitu vatni). Samt var gaman að rifja þetta upp. Ég þarf greinilega að vera duglegri að skrifa;-)


Jú, núna man ég eftir kvikmyndinni á laugardagskvöld: Mulholland Falls. Og hún var bara hreint ágæt...

Barnið vex og belgurinn með


Og enn finnst mér ég vera að springa. Og ég er orðin leið á andvökunóttum sökum hósta sem fylgir þessu leiðindakvefi sem ég ætla að því er virðist aldrei að losna við.

Annars hef ég það bara ágætt. Mér tókst samt að hlassast á rassinn í kjallaratröppunum í fyrrakvöld, þrátt fyrir að vera afar varkár. E-n veginn runnu lappirnar undan mér á svellbunka, ég bar hendurnar aftur fyrir mig og tókst að rispa mig vel, og gullúrið mitt líka. Slapp svo bara með auman rass, skrámur og marblett á baki. Og skældi smá. Aðallega af hræðslu. Ég virðist vera farin að skæla yfir ýmsu þessa dagana.

En að öllu skemmtilegri fréttum. Ég eignaðist litla frænku í morgun. Hún er ljósrauðhærð og kann að syngja. Og er Þorsteinsdóttir. Ég er því orðin föðursystir og brosi hringinn. Óskaplega hlakka ég til að sjá litlu fjölskylduna fyrir norðan!