fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Kvöldstund við sjónvarpið


Sit og prjóna og horfi á sjónvarpið. Bráðavaktin á dagskrá. Slösuð kona kemur inn og er að fæða barn með miklum ópum og kveinstöfum. Ylfa Rós (5 ára) segir íbyggin: Ég ætla sko aldrei að eignast barna þegar ég verð stór. Ég ætla að verða eins og mamma og vera ekkert að eignast börn.
Ég: Núhhh, en mamma þín á börn, ykkur tvær!
YR: Já, en núna er hún ekkert að eignast börn og ég ætla að verða eins og hún.
Ég: Aha
Þögn
YR: Hvenær ætlar þú að eignast lítið barn?
Ég: Uhhh, ummm, þegar ég finn einhvern sem vill eingast barn með mér.
Stutt þögn.
YR: Af hverju spyrðu ekki bara pabba?

Alveg hreint kostulegt;-)

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Flísalögn


Á laugardaginn var kom pabbi og lagði með mér flísar. Hann kemur væntanlega í kvöld og lýkur við verkið. Ég get ekki beðið eftir að þetta klárist. Ég er orðin svoooooo leið á að hafa allt í drasli og skít!

Ég prjóna og prjóna og er nú komin vel á veg með peysuna á Böðvar; bolurinn er ég búin að prjóna upp að höndum og er langt komin með fyrri ermina. Ég byrjaði fyrir 10 dögum. Þótt ég sé í vinnunni núna er ég alltaf að fá nýja og nýja hugmynd að peysum eða útfærslum, litasamsetningum o.s.frv. Hmmmm, það er nokkuð ljóst hvað ég er með á heilanum núna;-)

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Fyrsta greinin birt


Í kvöld ætla ég að skála. Fyrir sjálfri mér. Ég er nú búin að fá eintak af Jökulgreininni um skjálftavirkni árið 2004 og þar með búin að fá birta fyrstu ritrýndu greinina sem ég er aðalhöfundur að (hún fékk nú reyndar svona skyndiritrýningu, en hvað með það). Húrra fyrir því!!!

Stelpurnar koma í saumó til mín í kvöld. Ég náði að pússa borðplötuna og olíubera í gær. Eldhúsið er því svona smátt og smátt að taka á sig endanlega mynd. En í kvöld verður kjaftað. Og prjónað.

Ég er vanalega á þönum að gera hitt og þetta meðan ég borða morgunmatinn; til að nýta tíman á meðan ég tygg múslíið. Það er nú eiginlega hollara að setjast niður og gefa sér tíma í að næra sig. Svo ég ákvað að prjóna á meðan ég mataðist. Þá gat ég nefnilega gert tvennt í einu. Og setið kyrr. Sniðugt. Peysan á Böðvar potast sum sé áfram.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Skrautritari óskar eftir verkefnum



Ohhhh. Dásamlegt. Ég fékk þessa stórgóðu hugmynd hvernig ég get fengið sjálfa mig til að lesa fleiri vísindagreinar (á eftir að lesa slatta t.d. fyrir ritgerðina...): Ég prjóna á meðan ég les!!!

Breytingar á eldhúsinu standa enn yfir. Um helgina sótti ég eikarlímtrésplötuna sem ég var búin að panta. Hún var nú ekki gefins! JGE kom í gærkvöld og hjálpaði mér að fella hana inn á sinn stað og skrúfaði fasta. Ég á því eftir að pússa hana fína og olíubera og mun ég hefjast handa við það verk í kvöld. Annars er eldhúsinnréttingin nú þegar tekið stakkaskiptum því ég er búin að hvítlakka hana nær alla. Nokkrar hurðir þurfa eina til tvær umferðir í viðbót. Það hefir birt mikið til. Pabbi kemur á laugardagsmorgun og hjálpar mér við að flísaleggja milli skápanna og við eldavél og vask. Ég er farin að hlakka til. Svei mér þá.

Ég ákvað að taka að mér smá aukastarf sem mér bauðst, og hef hafnað hingað til. Ég kenni nú einum hóp verklega eðlisfræði í Háskólanum á föstudögum, og hef nú þegar kennt tvisvar, tvö skipti eru eftir. Það hefur gengið svona lala, en ég hef bara gaman að þessu. Það er heldur ekki slæmt að fá svolítinn aukaskilding í budduna, þótt það verði varla neitt að ráði. Það munar þó um það. Eftir að ég fékk skrautritunarverkefni frá Veðurstofunni fyrir síðustu áramót, og ágætlega greitt fyrir, hugsaði ég með mér að ég ætti að reyna að koma mér e-ð á framfæri og hafa þetta sem aukabúgrein. Svo nú er ég titluð í símaskrá sem jarðeðlisfræðingur og skrautritari. Mig er einnig að finna í gulu síðunum en hvort ég fæ e-ð að gera út á þetta er annað mál. En það sakar ekki að reyna.

Ég þarf að fara til Uppsala til að taka einn kúrs í viðbót. Auk þess ætla ég að reyna að skrifa RITGERÐINA. Ég verð því væntanlega úti mestallan apríl og maí. Ég er því alvarlega að velta því fyrir mér að leigja út íbúðina í þessa tvo mánuði með húsgögnum og fl. Ef þið vitið um e-n sem hefði áhuga og er snyrtilegur, og ábyrgur (og reykir ekki inni) megið þið gjarna láta vita.