Skrautritari óskar eftir verkefnum
Ohhhh. Dásamlegt. Ég fékk þessa stórgóðu hugmynd hvernig ég get fengið sjálfa mig til að lesa fleiri vísindagreinar (á eftir að lesa slatta t.d. fyrir ritgerðina...): Ég prjóna á meðan ég les!!!
Breytingar á eldhúsinu standa enn yfir. Um helgina sótti ég eikarlímtrésplötuna sem ég var búin að panta. Hún var nú ekki gefins! JGE kom í gærkvöld og hjálpaði mér að fella hana inn á sinn stað og skrúfaði fasta. Ég á því eftir að pússa hana fína og olíubera og mun ég hefjast handa við það verk í kvöld. Annars er eldhúsinnréttingin nú þegar tekið stakkaskiptum því ég er búin að hvítlakka hana nær alla. Nokkrar hurðir þurfa eina til tvær umferðir í viðbót. Það hefir birt mikið til. Pabbi kemur á laugardagsmorgun og hjálpar mér við að flísaleggja milli skápanna og við eldavél og vask. Ég er farin að hlakka til. Svei mér þá.
Ég ákvað að taka að mér smá aukastarf sem mér bauðst, og hef hafnað hingað til. Ég kenni nú einum hóp verklega eðlisfræði í Háskólanum á föstudögum, og hef nú þegar kennt tvisvar, tvö skipti eru eftir. Það hefur gengið svona lala, en ég hef bara gaman að þessu. Það er heldur ekki slæmt að fá svolítinn aukaskilding í budduna, þótt það verði varla neitt að ráði. Það munar þó um það. Eftir að ég fékk skrautritunarverkefni frá Veðurstofunni fyrir síðustu áramót, og ágætlega greitt fyrir, hugsaði ég með mér að ég ætti að reyna að koma mér e-ð á framfæri og hafa þetta sem aukabúgrein. Svo nú er ég titluð í símaskrá sem jarðeðlisfræðingur og skrautritari. Mig er einnig að finna í gulu síðunum en hvort ég fæ e-ð að gera út á þetta er annað mál. En það sakar ekki að reyna.
Ég þarf að fara til Uppsala til að taka einn kúrs í viðbót. Auk þess ætla ég að reyna að skrifa RITGERÐINA. Ég verð því væntanlega úti mestallan apríl og maí. Ég er því alvarlega að velta því fyrir mér að leigja út íbúðina í þessa tvo mánuði með húsgögnum og fl. Ef þið vitið um e-n sem hefði áhuga og er snyrtilegur, og ábyrgur (og reykir ekki inni) megið þið gjarna láta vita.