Af barferð, túristadegi og fjallaferð...
Ég þykist lítinn tíma hafa til að skrifa nú orðið. Ástæðan eiginlega sú að ég er heima og nær öllum vinum núna. En þó ekki öllum. Svo ég ætla að reyna að halda þessu gangandi.
Nú, síðasta föstudag (þ.e. fyrir viku) var ég á leið heim úr vinnunni. Veðrið var ljómandi gott og ég ætlaði mér að fara niður á strönd eftir að hafa skift um föt. Þá hringdi Cedric. Ég var búin að lofa að lóðsa hann e-ð um áður en hann færi heim. Hann vildi fara í Bláa lónið svo þangað fórum við um kvöldmatarleytið. Þar var allt pakkað af túristum, enda með betri dögum. Við fórum ekki upp úr fyrri en að verða níu. Ókum þá niður í Grindavík þar sem ég tók bensín. Svo sýndi ég honum gömlu kirkjuna (sem nú er leikskóli) og höfnina (vissi ekki hvað annað væri hægt að sýna honum þar). Svo var brunað í bæinn. Ráfuðum um í miðbænum í leit að ódýrum en góðum veitingastað. Enduðum loks á að fá okkur mexíkanskan mat í Lækjargötunni, ljómandi góðan og vel úti látinn. Klukkan var rétt að verða tólf þegar við loks kláruðum að borða. Cedric var e-ð þreyttur eftir ferðalagið svo ég skilaði honum heim. Mælti mér svo mót við Gerðu niðrí bæ og dreif mig í að skipta um föt. Við byrjuðum á Thorvaldsens-bar niðri við Austurvöll. Þar voru Maggi Kj. og félagar hans að koma úr skírnarveislu. Þeir áttu hvorki peru-cider né Kilkenny (uss) svo við fengum okkur eina flösku hvor að glæru sulli með lime-bragði. Staðurinn var troðinn svo við héldum af stað. Ráfuðum um lengi og enduðum loks á Dubliners-kránni þar sem ég bauð Gerðu upp á einn Kilkenny. Auðvitað gat ég ekki keyrt bílinn eftir þetta en ég hafði skilið hjólið mitt eftir í vinnunni. Fannst hins vegar of langt að ganga þangað á bleiku skónum svo ég tók leigubíl þangað. Bílstjórinn varð nú svolítið hissa þegar ég sagði "á Veðurstofuna" klukkan hálffjögur um nótt. Hjólaði svo heim og var ekki komin í rúmið fyrr en um fjögur. Og ég hafði lofað Cedric að koma klukkan 10 morguninn eftir að sækja hann. Vaknaði klukkan tíu, bíllinn niðrí bæ.... En þetta reddaðist allt saman, kom kanski aðeins of seint. Fórum rakleiðis niður á Laugarveg, og svo á Þingvelli, Gullfoss og Geysi í frábæru veðri og hita.
Daginn eftir fór Cedric heim en ég dreif mig ein í fjallgöngu. Gekk upp úr Botnsdal á Botnssúlur (Vestur-Súlu), áfram niður að Hvalvatni og áfram kringum það. Áfram niður með Botnsá og niður með gljúfri Glyms. Ég komst loks í bílinn hálf-tíu um kvöldið. Á leiðinni tókst mér að týna myndavélinni. Eða öllu heldur gleyma henni þar sem ég stoppaði til að bregða mér afsíðis á kindagötu við Hvalvatn. Já. ég uppgötvaði það líklega þremur korterum seinna, þegar ég var kominn góðan spotta niður með ánni sem rennur úr vatninu (Botnsá). Úff, ég fékk sjokk. Hugsaði með mér að ég yrði að drífa mig strax til baka og leita. Eg byrjaði á því að göslast yfir ána á skónum því ég taldi mig fljótari að fylgja vegslóðanum til baka heldur en að klöngrast meðfram fjallshlíðinni. Svo setti ég í fimmta gír og strunsaði og strunsaði. Ég hafði heppnina með mér, því mér tókst að fylgja réttu kindagötunni og líta til hliðar á hárréttu augnabliki. Svo strunsaði ég til baka. Þetta tafði mig um klukkutíma. Ég var vel lúin daginn eftir.
Í vikunni er ég búin að vera að teikna myndir og keyra staðsetningarforritið á ný svæði. Í fyrramálið legg ég svo af stað vestur á Firði til að ganga með OS-hópnum og mömmu. Við munum halda til í Önundarfirði og fara líklega í eins dags göngur, annars er ekki búið að ákveða það nákvæmlega. Kem líklega ekki heim fyrr en eftir Verslunarmannahelgi, en þá líklega með fullt af nýjum mynum og ferðasögu. Veriði blessuð á meðan.