föstudagur, júlí 25, 2003

Af barferð, túristadegi og fjallaferð...


Ég þykist lítinn tíma hafa til að skrifa nú orðið. Ástæðan eiginlega sú að ég er heima og nær öllum vinum núna. En þó ekki öllum. Svo ég ætla að reyna að halda þessu gangandi.

Nú, síðasta föstudag (þ.e. fyrir viku) var ég á leið heim úr vinnunni. Veðrið var ljómandi gott og ég ætlaði mér að fara niður á strönd eftir að hafa skift um föt. Þá hringdi Cedric. Ég var búin að lofa að lóðsa hann e-ð um áður en hann færi heim. Hann vildi fara í Bláa lónið svo þangað fórum við um kvöldmatarleytið. Þar var allt pakkað af túristum, enda með betri dögum. Við fórum ekki upp úr fyrri en að verða níu. Ókum þá niður í Grindavík þar sem ég tók bensín. Svo sýndi ég honum gömlu kirkjuna (sem nú er leikskóli) og höfnina (vissi ekki hvað annað væri hægt að sýna honum þar). Svo var brunað í bæinn. Ráfuðum um í miðbænum í leit að ódýrum en góðum veitingastað. Enduðum loks á að fá okkur mexíkanskan mat í Lækjargötunni, ljómandi góðan og vel úti látinn. Klukkan var rétt að verða tólf þegar við loks kláruðum að borða. Cedric var e-ð þreyttur eftir ferðalagið svo ég skilaði honum heim. Mælti mér svo mót við Gerðu niðrí bæ og dreif mig í að skipta um föt. Við byrjuðum á Thorvaldsens-bar niðri við Austurvöll. Þar voru Maggi Kj. og félagar hans að koma úr skírnarveislu. Þeir áttu hvorki peru-cider né Kilkenny (uss) svo við fengum okkur eina flösku hvor að glæru sulli með lime-bragði. Staðurinn var troðinn svo við héldum af stað. Ráfuðum um lengi og enduðum loks á Dubliners-kránni þar sem ég bauð Gerðu upp á einn Kilkenny. Auðvitað gat ég ekki keyrt bílinn eftir þetta en ég hafði skilið hjólið mitt eftir í vinnunni. Fannst hins vegar of langt að ganga þangað á bleiku skónum svo ég tók leigubíl þangað. Bílstjórinn varð nú svolítið hissa þegar ég sagði "á Veðurstofuna" klukkan hálffjögur um nótt. Hjólaði svo heim og var ekki komin í rúmið fyrr en um fjögur. Og ég hafði lofað Cedric að koma klukkan 10 morguninn eftir að sækja hann. Vaknaði klukkan tíu, bíllinn niðrí bæ.... En þetta reddaðist allt saman, kom kanski aðeins of seint. Fórum rakleiðis niður á Laugarveg, og svo á Þingvelli, Gullfoss og Geysi í frábæru veðri og hita.

Daginn eftir fór Cedric heim en ég dreif mig ein í fjallgöngu. Gekk upp úr Botnsdal á Botnssúlur (Vestur-Súlu), áfram niður að Hvalvatni og áfram kringum það. Áfram niður með Botnsá og niður með gljúfri Glyms. Ég komst loks í bílinn hálf-tíu um kvöldið. Á leiðinni tókst mér að týna myndavélinni. Eða öllu heldur gleyma henni þar sem ég stoppaði til að bregða mér afsíðis á kindagötu við Hvalvatn. Já. ég uppgötvaði það líklega þremur korterum seinna, þegar ég var kominn góðan spotta niður með ánni sem rennur úr vatninu (Botnsá). Úff, ég fékk sjokk. Hugsaði með mér að ég yrði að drífa mig strax til baka og leita. Eg byrjaði á því að göslast yfir ána á skónum því ég taldi mig fljótari að fylgja vegslóðanum til baka heldur en að klöngrast meðfram fjallshlíðinni. Svo setti ég í fimmta gír og strunsaði og strunsaði. Ég hafði heppnina með mér, því mér tókst að fylgja réttu kindagötunni og líta til hliðar á hárréttu augnabliki. Svo strunsaði ég til baka. Þetta tafði mig um klukkutíma. Ég var vel lúin daginn eftir.

Í vikunni er ég búin að vera að teikna myndir og keyra staðsetningarforritið á ný svæði. Í fyrramálið legg ég svo af stað vestur á Firði til að ganga með OS-hópnum og mömmu. Við munum halda til í Önundarfirði og fara líklega í eins dags göngur, annars er ekki búið að ákveða það nákvæmlega. Kem líklega ekki heim fyrr en eftir Verslunarmannahelgi, en þá líklega með fullt af nýjum mynum og ferðasögu. Veriði blessuð á meðan.

föstudagur, júlí 18, 2003

Það er nú meiri blíðan


Oooooo það er alltof gott veður til að vera inni. Mér finnst það ætti að banna fólki að vinna inni í svona góðu veðri. Sérstaklega fólki á Veðurstofunni.
Af hverju á ég ekki inni þúsund frídaga?

Ég læt mig dreyma um ...að svamla úti í sjó í Nauthólsvíkinni, flatmaga í sólinni og sandinum ...ganga á Heklu, ábyggilega frábært útsýni þar í dag
... og fleira og fleira

Nú hefi ég loksins komið því í verk að setja inn myndir úr miðsumarferðinni. Ég fór með Jóhíris, Cedric, Daníel hollenska og öðrum Hollendingi, Bart, sem er vinur Jóhírisar. Bart kom til Svíþjóðar helgina áður til að taka þátt í maraþoni í Stokkhólmi. Hann var skiptinemi í Uppsölum fyrir nokkrum árum og er núna að skrifa mastersverkefi í sögu um sænsk dagblöð u.þ.b. síðustu fimmtíu árin.

Þegar þau komu að sækja mig var mér tilkynnt að búið væri að panta gistingu inni með morgunverði. Það var eins gott, því það rigndi eins og hellt væri úr fötu. Ekið var til Leksand og gist þar á heimili utan við bæinn. Daginn eftir voru tínd blóm úti í skógi í miðsumarkransinn sem var svo borinn á miðsumarhátíðinni. Þ.e. þegar blómastöngin var reist og svo dansað í kringum hana (í rigningunni). Um kvöldið buðu hjónin, sem við gistum hjá, okkur að borða með sér og vinafólki þeirra. Ég smakkaði heimsins besta síldarsalat og sitthvað fleira góðgæti. Um miðnætti var svo farið út í göngutúr og allir tíndu sjö tegundir af blómum til að sofa með undir koddanum. Sögur segja að menn eigi þá að dreyma verðandi maka sinn. Tveir vina minna vöknuðu þokkalega sáttir. Hinir sögðust hafa tækifæri næsta sumar.

Loksins stytti upp daginn eftir. Þá ókum við til Rättvíkur, fórum á bak á gráum Dala-hesti, gengum út á bryggju sem liggur langt út á Siljan-vatnið, kíktum í handverksbúð og ókum loks heim gegnum Falun. Svo var ákveðið að halda áfram. Grill og partý. Fámennt en góðmennt. Það var dansað fram á nótt. Alveg þangað til Cedric var alveg að sofna (aðeins of mikill bjór). Ég fylgdi honum heim og tók svo til við að þrífa. Fór sum sé aldrei að sofa þá nóttina. Jóhíris, Cedric og Bart fylgdu mér að lokum út á flugvöll. Ég fékk versta sætið í vélinni. Alveg aftast við ganginn. Eftir matinn var stöðug biðröð á klósettið, fólk var alltaf að rekast utan í mig og ýta á sætið mitt, sem ég var að reyna að halla aftur. Mér kom varla dúr á auga. Já. Var bara frekar úrill þann daginn.

Og þar með lýkur þeirri sögu...

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Nóg að gera...


Jább. Það er nóg að gera og að mörgu að huga þessa dagana.
Þegar ég kom í vinnuna í gær var komin önnur græn stjarna á skjálftakortið. Og fjölmiðlar byrjuðu að hringja... Frétt í vef-mogganum...
Og núna rétt í þessu var Steinunn að tilkynna mér að maður hefði hringt og tilkynnt að skálavörður í Emstruskála fyndi aukna hverafýlu frá Mýrdalsjökli.
Það hafa einmitt verið að aukast viðvaranir það í dag, og síðustu daga. Ætli eitthvað fari að gerast???

Núna rétt áðan voru tveir nýir skjálftar... Og spennan eykst... Kemst ekki heim alveg strax. Þetta þarf nu ekki endilega að vera neitt.